Vertu með í suðupotti unglingamenningar

Unglingar í Grafarvogi dansa úti á góðum degi.

Unglingar í Grafarvogi dansa úti á góðum degi.

Miðvikudaginn 6. nóvember standa félagsmiðstöðvar á Íslandi og SAMFÉS fyrir svokölluðum Félagsmiðstöðvadegi. Félagsmiðstöðvar í Reykjavík taka af því tilefni vel á móti gestum á öllum aldri og kynna starfsemi sína.

Á Félagsmiðstöðvadegi blómstrar unglingamenning í Reykjavík enda bera unglingar og unglingaráðin hitann og þungann af undirbúningi dagsins. Menning þeirra fær að njóta sín í hönnun, kvikmyndagerð, tónlist, dansi, leiklist og myndlist. Lögð er megináhersla á að sýna sköpunargleði unglinga, enda eru þeir mótandi menningarafl í nútíð og framtíð. Í öllum félagsmiðstöðvum borgarinnar verður gestum boðið upp á kaffi og kökur og þeir leiddir með í leik og spil. Þá verða víða sýnd brot úr splunkunýjum Skrekks-atriðum, en undirbúningur að hæfileikakeppninni sem fram fer í Borgarleikhúsi síðar í þessum mánuði, stendur nú sem hæst.

SAMFÉS, Samtök félagsmiðstöðva á Íslandi, standa fyrir Félagsmiðstöðvadeginum en dagurinn á rætur að rekja til Reykjavíkur þar sem fyrst var haldinn slíkur dagur á árinu 2005.

Markmið Félagsmiðstöðvadagsins er að gefa ungum og öldnum tækifæri til að kynna sér unglingamenningu í sínu hverfi, kynnast því metnaðarfulla fagstarfi sem fer fram félagsmiðstöðinni, unglingunum sjálfum og daglegum viðfangsefnum þeirra.  Allir eru velkomnir, sérstaklega foreldrar og „gamlir“ unglingar sem vilja rifja upp kynnin við gömlu félagsmiðstöðina sína.

Dagskrá félagsmiðstöðvanna er fjölbreytt og eru áhugasamir  hvattir til að kynna sér dagskrá félagsmiðstöðvanna á heimasíðum þeirra. 

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.