Úthlutun á hagkvæmu húsnæði í Gufunesi

Þorpið vistfélag úthlutaði í dag fyrstu 43 íbúðum félagsins til ungs fólks og fyrstu kaupenda í Gufunesi. Samhliða úthlutun á fyrstu íbúðunum í Gufunesi var tilkynnt um lækkun á verði íbúðanna.

Alls vildu 132 einstaklingar fá íbúð í þessum fyrsta áfanga, en 82 náðu greiðslumati til kaupa. Dregið var á milli þeirra í ráðhúsi Reykjavíkur af fulltrúa sýslumanns í dag. Þrír umsækjendur voru um hverja íbúð, en tæplega tveir um hverja íbúð með gilt greiðslumat sem dregið var um.

Umsækjendur fá póst í dag um niðurstöðu útdráttar, en einnig þau skilaboð að kaupverð íbúða þeirra hefði lækkað um 470 til 900 þúsund vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar um endurgreiðslu á virðisaukaskatti sem hefur lækkað byggingarkostnað umtalsvert. Þorpið hefur ákveðið að láta kaupendur njóta þess og lækkað áður auglýst verð þrátt fyrir mikla eftirspurn. Meðaltalslækkun á kaupverði íbúða sem tilkynnt var kaupendum í dag eftir útdrátt, eru rúmar 700 þúsund frá því verði sem kynnt var umsækjendum fyrir útdrátt.

Kaupendur fá nú vikufrest til að staðfesta kaupin. Í kjölfarið verður gerður kaupsamningur og kaupendur greiða 5% af kaupverði sem innborgun. Til að tryggja réttindi kaupenda verður innborgun þeirra varðveitt á vörslureikningi í nafni viðkomandi fram til þess að íbúðin verður fokheld í haust.

Uppbygging Þorpsins í Gufunesi er hluti af verkefni Reykjavíkurborgar um hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur og er Þorpið fyrsta verkefnið sem fer af stað.

„Það er ánægjulegt að sjá með þessum skýra hætti ávinning af aðgerðum stjórnvalda til lækkunar á byggingakostnaði“ segir Runólfur Ágústsson, verkefnastjóri Þorpsins. „Með sama hætti er það dapurt að upplifa hve margir ná ekki gildu greiðslumati. Sú staða að einstaklingar á leigumarkaði geti ekki komist í eigið húsnæði vegna þess hve hátt hlutfall tekna þeirra fer í leigu, er óviðunandi. Fólk sem greiðir 250 þúsund í mánaðarleigu og myndi lækka greiðslubyrði sína um helming með kaupum á íbúð hjá Þorpinu fær ekki greiðslumat til að fjármagna kaup sín. Sama gildir um námsmenn sem eru án tekna en í flestum tilfellum með góðar framtíðartekjur. Úr þessu átti frumvarp um hlutdeildarlán að bæta, en það var því miður ekki afgreitt á Alþingi nú fyrir þinglok.“ segir Runólfur.

Verð íbúða Þorpsins er sem hér segir:

  • Stúdíóíbúðir eru á 19 milljónir króna, tveggja herbergja íbúðir á 27,1 mkr., þriggja herbergja íbúðir á 31,6 mkr og fjögurra herberga íbúðir á 36,5 mkr. 
  • Íbúðum fylgir mikil sameign s.s. sameiginlegt þvottahús, veislusalur/kaffihús og pósthús/búr. Einnig fylgja íbúðum grænmetisgarðar og deilibílar.

Mikil umframeftirspurn var eftir öllum íbúðargerðum nema fjögurra herbergja íbúðum, þar sem enn eru óseldar 5 af 12 íbúðum í þessum fyrsta áfanga. Mest var ásóknin í tveggja herberga íbúðir þar sem 25 manns sóttu um 10 íbúðir og í stúdíóíbúðir þar sem 14 manns sóttu um 4 íbúðir.


Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.