Hið vinsæla TORG – skákmót Fjölnis verður haldið í 12. skipti laugardaginn 14. nóvember og hefst kl. 11.00 í hátíðarsal Rimaskóla.
Þátttakendur eru beðnir um að mæta til skráningar og upphitunar tímanlega. Öllum grunnskólabörnum er boðið að vera með í mótinu og er þátttakan ókeypis. Í skákhléi býður Emmess öllum keppendum upp á íspinna og í lok mótsins verður glæsileg verðlaunahátíð með 20 vinningum og happadrættisvinningum til viðbótar frá Emmess og fyrirtækjunum á TORGINU í Hverafold.
Hægt verður að vinna glæsilega íspakka frá Emmess, hamborgaratilboð, pítsur, tískuvörur frá Coco´s, bækur og blómavörur. Tefldar verða sex umferðir og umhugsunartíminn sjö mínútur.
Heiðursgestur Skákdeildar Fjölnis að þessu sinni verður Össur Skarphéðinsson þingmaður Reykjavíkur norður sem leikur fyrsta leik mótsins.
TORG skákmót Fjölnis eru stutt, skemmtileg og spennandi.
Allir áhugasamir skákkrakkar eru hvattir til að mæta í Rimaskóla laugardaginn 14. nóvember.
Leið 6 hjá Strætó stoppar 100 m frá Rimaskóla.
Foreldrum velkomið að fylgjast með og þiggja kaffiveitingar.