Aðsent
– Tillögur um víðtæka sameiningu leikskóla í eystri hverfum Reykjavíkur voru lagðar fram á síðasta fundi skóla- og frístundaráðs.
Lögð er til sameining Seljaborgar og Seljakots í Breiðholti og Engjaborgar og Hulduheima í Grafarvogi um næstu áramót. Þá á að skoða sameiningu Fífuborgar, Laufskála og Lyngheima í Grafarvogi.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja rétt að ekki verði ráðist í frekari sameiningu leikskóla í borginni fyrr en reynslan af fyrri sameiningum hefur verið metin með faglegum hætti.
En margt leikskólafólk hefur haldið því fram að þær sameiningar hafi haft neikvæð áhrif í för með sér á þá skóla sem sameinaðir voru: aukið álag á stjórnendur og starfsmenn, fjölgað veikindadögum, aukið manneklu og leitt til þess að skólarnir hafi misst frá sér faglært fólk.
Tillaga Sjálfstæðisflokksins um að bíða með ákvörðun um sameiningaráform þar til slík fagleg úttekt liggur fyrir var felld með atkvæðum Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar. Einstökum ákvörðunum um sameiningar var síðan frestað til næsta fundar ráðsins.
Hægt er að lesa fundargerðir Skóla- og frístundaráðs hérna…..