Sýningaropnun í Borgarbókasafni í Spöng, 6. desember kl. 14
Frystikista í fjörunni
Washed Up
Laugardaginn 6. desember kl. 14 verður sýningin Frystikista í fjörunni með verkum eftir Gunnhildi Þórðardóttur opnuð í nýju útibúi Borgarbókasafnsins sem verður í Spöng í Grafarvogi.
Verkin eru tví- og þrívíð, unnin á árunum 2013-2014 og er efniviður þeirra af ýmsu tagi. Gunnhildur notar ýmislegt sem verður á vegi hennar, til dæmis muni sem hefur verið hent og skolað á land upp í fjöru, eða efni sem til fellur, til dæmis timbur, bárujárn og textíl. Þannig fá hlutir framhaldslíf eða nýtt hlutverk þegar þeir eru settir í annað samhengi í verkum Gunnhildar. Sjálfbærni er listamanninum hugleikin og vísar titill sýningarinnar í samnefnt ljóð Gunnhildar þar sem kemur fram gagnrýni á neyslusamfélagið. Sum verkanna voru áður til sýnis á sýningunni Áframhald í Listasafni Reykjanesbæjar árið 2013.
Gunnhildur Þórðardóttir lauk BA (Honours) í listasögu og fagurlistum frá Anglia Ruskin University í Cambridge árið 2003 og MA í liststjórnun frá sama skóla árið 2006. Hún hefur haldið nokkrar einkasýningar meðal annars Regnbogapönk í Slunkaríki á Ísafirði (2014), Áframhald í Listasafni Reykjanesbæjar (2013), Minningar í kössum í Flóru á Akureyri (2013) auk þess sem Gunnhildur hefur tekið þátt í samsýningum í Listasafni Íslands og í Hafnarborg. Þá hefur hún einnig tekið þátt í myndbandsgjörningi í Tate Britain-safninu í London sem stjórnað var af Tracey Moberly myndlistarmanni.
Sýningin Frystikista í fjörunni stendur til 12. apríl 2015 og er opin á afgreiðslutíma safnsins. Borgarbókasafn í Spöng er opið virka daga kl. 10-19, nema föstudaga er opið frá 11-19. Á laugardögum er opið frá kl. 12-16.
Nánari upplýsingar veita:
Gunnhildur Þórðardóttir, gunnhildurthordar@gmail.com, s. 898 3419
Margrét Valdimarsdóttir, margret.valdimarsdottir@reykjavik.is, s. 848 0683