Skólastarf í norðanverðum Grafarvogi

Valgerður Sigurðardóttir

Nú hefur það verið gefið út að fallið hafi verið frá því að gera breytingar á skólum í norðanverðum Grafarvogi. Ég vill byrja á því að þakka ykkur öllum sem hafið tekið þennan slag með mér. Við höfum unnið þessa orustu. Það er stór sigur að hafa betur gegn meirihlutanum í málum sem þessum.

Það er sorglegt að meirihlutinn í Reykjavík hlusti ekki, meirihluti sem boðar sjálfbærari hverfi og íbúalýðræði. Meirihluta sem er ákaflega umhugað um bíllausan lífsstíl með það að markmiði að menga sem minnst. Sá veruleiki sem þessi sami meirihluti ætlaði síðan að bjóða íbúum í norðanverðum Grafarvogi upp á er algerlega í andstöðu við þessi markmið.

Þær hugmyndir, sem hafa verið uppi um sameiningar og lokun á skólum er ekkert annað en aðför að hverfinu okkar. Aðför að öllum sem þar búa, enda bitna breytingarnar ekki aðeins á barnafólki heldur hverfinu öllu.

Við skulum vona að meirihlutinn sjái að sér og stingi þessari hugmynd sinni beint í pappírstætarann þar sem hún á heima. Það er komið nóg af því að íbúar í Grafarvogi þurfi að berjast fyrir því að lögbundinni grunnþjónustu, sem sveitarfélaginu ber skylda til þess að veita, sé haldið úti í Grafarvogi. Valgerður Sigurðardóttir



Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.