Sælir foreldrar
Í lok árangursríks skákárs innan Rimaskóla er ánægjulegt að geta sagt frá því að síðasta skákmótið innan skólans í vetur, hið árlega Skákmóti Rimaskóla verður haldið í næstu viku.
Skákmót Rimaskóla hefur verið haldið allt frá 1993- 1994, en þá strax á fyrsta starfsári skólans var keppt um titilinn Skákmeistari Rimaskóla.
Allir bestu skákmenn skólans hafa hampað titlinum en enginn þó oftar en Hjörvar Steinn Grétarsson, yngsti stórmeistari Íslands, sem vann skólamótið í alls 7 skipti.
Skákmót Rimaskóla verður í ár boðsmót. Allir þeir sem hafa reglulega verið að æfa skák í vetur og keppt fyrir hönd skólans er boðið að taka þátt u.þ.b. 30 krökkum.
Mótið verður haldið á skólatíma þriðjudaginn 19. maí frá kl. 9:45 – 11:45. Tefldar verða sex umferðir með 7 mín. umhugsunartíma á hverja skák.
Sigurvegarinn fær eignarbikar að launum og farandbikar til eins árs sem nafn sigurvegarans verður ritað á.
Nokkrir vinningar verða í boði (pítsugjafabréf) og veitingar í skákhléi.
Við væntum þess að barnið / börnin ykkar vilji taka þátt í spennandi skákmóti, og fái leyfi til að taka þátt í Skákmóti Rimaskóla sem verður það 22. í sögu skólans.