Sævar Reykjalín segir „Mikið brottfall áhyggjuefni“

Mikið brottfall áhyggjuefni 

Æfingar hjá Fjölnir hafa verið með breyttu sniði síðustu mánuði. Sóttvarnaraðgerðir yfirvalda hafa bannað hópæfingar, lokað íþróttahúsum og sundstöðum og því hafa æfingar í því formi sem margir hafa vanist ekki verið með hefðbundnu hætti. Hafa ýmsar deildir innan Fjölnis prófað margvíslegar og nýstárlegar aðferðir til að viðhalda æfingum auk þess sem verkefnið #FjölnirHeima vakti mikla lukku. 

“Knattspyrnudeildin hefur eftir fremsta megni haldið uppi æfingum eins og hægt er miðað við aðstæður með heimaæfingum, spurningakeppnum og ratleik svo eitthvað sé nefnt. Þetta eru skrýtnir tímar og hafa yfirþjálfarar og þjálfarar verið dugleg að reyna allt mögulegt til að nálgast iðkendur á sem fjölbreyttastan hátt” segir Sævar Reykjalín formaður Barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar (BUR) Fjölnis. 

Nú hillir undir að takmörkunum verði létt í þessari viku, íþróttahús opni og æfingar hefjist aftur í hópum fyrir börn og unglinga og að sögn Sævars er það mikið gleðiefni enda bíði þjálfarar og starfsfólk knattspyrnudeildar spennt eftir því að taka á móti iðkendum að nýju. 

“Um leið og það er mikið gleðiefni að æfingar eru að hefjast að nýju og að íþróttastarf barna og unglinga færist í samt horf þá er það mikið áhyggjuefni hve mikið brottfall hefur verið það sem af er ári. Þetta á við um öll félög í Reykjavík sem ég hef rætt við og sumstaðar er brottfallið í kringum 15% og annarsstaðar í kringum 30%” segir Sævar og hefur miklar áhyggjur af því að þessir krakkar hætta alfarið í íþróttum. 

“Það er mjög mikilvægt að foreldrar, forráðamenn og við sem samfélag hvetjum þessi börn til að fara að mæta aftur á æfingar og hitta vini og félaga. Íþrótta iðkunn snýr ekki eingöngu að líkamlegu hreysti og vellíðan heldur er félagslegi parturinn og forvarnargildið gríðarlega mikilvægt einnig. Við þurfum að passa upp á þessa krakka og styðja þau til að koma sér aftur af stað og á æfingar” bætir hann við. 

Ljóst er að fækkun iðkenda hefur gríðarleg fjárhagsleg áhrif á íþróttafélögin og tekur Sævar undir það. “Vissulega hefur þetta áhrif og það er eitthvað sem við erum stanslaust að fylgjast með en okkar fókus er núna fyrst og fremst að þá þessa iðkendu aftur og virkja þá. Það er mikilvægasta verkefnið okkar og samfélagsins. Við hjá Fjölni erum tilbúin að taka á móti þeim sem hafa verið að stunda heimaæfingar að kappi, sem og þeim sem þurfa að koma sér aftur af stað” 

Finna má allar upplýsingar um æfingatíma á heimasíðu Fjölnis.

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.