Norðurlandamótinu í skólaskák stúlkna 2015 var að ljúka í bænum Kolding í Danmörku. Sex íslenskar unglingalandsliðsstúlkur tóku þátt í mótinu og þar af tvær frá Fjölni, Nansý Davíðsdóttir 7-bekk Rimaskóla í C og yngsta flokki og Hrund Hauksdóttir í A og elsta flokki.
Fjölnisstúlkurnar stóðu sig langbest því að Nansý Davíðsdóttir (1676) varð Norðurlandameistari í yngsta flokki, hlaut 4,5 vinning úr 5 skákum og varð vinningi á undan helsta keppinaut sínum, sænsku stúlkunni Önnu Cramling Bellon (1925) sem er dóttir Piu Cramling fv. heimsmeistara kvenna í skák. Nansý varði titil sinn frá í fyrra en þá sigraði hún líka örugglega á Norðurlandamótinu sem haldið var á Bifröst.
Hrund stóð sig ekki síður vel því hún endaði í 1. – 2. sæti með 4 vinninga ásamt sænsku stúlkunni Jessica Bengtson. Jessica kom í mark á hærri stigaútreikningi en árangur Hrundar er athyglisverður þar sem hún var næst lægst á skákstigum af þeim 8 keppendum sem tefldu í A flokki.
Þær Hrund og Nansý hafa báðar hampað Norðurlandameistaratitlum með Rimaskóla, Hrund árið 2012 og Nansý árin 2011, 2012 og 2013.
Til hamingju Fjölnisstúlkur, frábær afrek hjá ykkur á NM.