Hugmyndasöfnun á Betri Reykjavík vegna nýframkvæmda og viðhaldsverkefna lýkur miðvikudaginn 15. júní og því fer hver að verða síðastur til að láta ljós sitt skína.
Nú þegar hafa um 500 hugmyndir skilað sér á Hverfið mitt eins og hugmyndasöfnunin heitir á Betri Reykjavík . „Það eru komnar töluvert fleiri hugmyndir en á sama tíma í fyrra,“ segir Róbert Bjarnason hjá Íbúum Ses. sem rekur Betri Reykjavík. Hann er ánægður með fjölgun þeirra sem heimsækja vefinn en hún hefur nær þrefaldast. „Nú hafa yfir 18.000 Reykvíkingar heimsótt vefinn en þeir voru um 7.000 á sama tíma í fyrra,“ segir hann.
Nýr vefur Betri Reykjavíkur virkar vel
Hugmyndavefurinn í ár er endurbætt útgáfa. Þeir sem setja inn hugmyndir geta látið ljósmyndir eða teikningar fylgja með til útskýringar eða gera hugmyndina líflegri. Engin takmörk eru á fjölda hugmynda sem hver og einn getur sett inn og hver og einn getur einnig sett inn hugmyndir í fleiru en einu hverfi. Hvatt er til þess að hafa aðeins eina hugmynd í hverri færslu.
Eftir að hugmynd hefur verið sett inn er hægt að deila henni á samfélagsmiðla og vekja athygli á henni. Þannig getur skapast stemning um hugmyndir og aðrir geta sett inn rök með eða á móti hugmynd. Róbert segir að þetta dragi fólk inn á vefinn. „Aukning í heimsóknum kemur næstum því öll frá viral virkni þar sem fólk er að smella beint á hugmyndir sem vinir eru að biðja um stuðning við á Facebook eða Twitter,“ segir hann.
Meira fé til framkvæmda en áður
Alls eru 450 milljónir til framkvæmda á þeim hugmyndum sem koma inn í ár og er það veruleg hækkun frá fyrri árum þegar 300 milljónir voru til ráðstöfunar.
Skipting fjármuna milli hverfa fer að hluta til eftir íbúafjölda og skiptist framkvæmdafé með eftirfarandi hætti:
Hverfi:
|
Upphæð:
|
Árbær
|
41.558.350
|
Breiðholt
|
69.957.904
|
Grafarholt og Úlfarsárdalur
|
29.004.563
|
Grafarvogur
|
60.640.770
|
Háaleiti og Bústaðir
|
50.916.979
|
Hlíðar
|
39.002.223
|
Kjalarnes
|
13.753.565
|
Laugardalur
|
55.376.368
|
Miðborg
|
33.986.795
|
Vesturbær
|
55.802.389
|
Nánari upplýsingar um fyrirkomulag skiptingar fjármuna eru á Hverfidmitt.is
Hugmyndasöfnun lýkur 15. júní 2016
Með hugmyndasöfnuninni er óskað er eftir snjöllum hugmyndum frá íbúum um smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefni í hverfum Reykjavíkur til að kjósa um í hverfakosningu Betri Reykjavíkur.
Markmiðið er að hugmyndirnar:
- nýtist hverfinu í heild.
- kosti ekki meira en er í framkvæmdapotti hverfisins.
- krefjist ekki mjög flókins undirbúnings og framkvæmdar.
- falli að skipulagi borgarinnar og stefnu, sé í verkahring borgarinnar og á borgarlandi.
Hugmyndir geta t.d. varðað:
- umhverfi og möguleika til útivistar og samveru, s.s. bekkir, gróður, útilistaverk, fegrun.
- aðstöðu til leikja eða afþreyingar, s.s. að bæta leiksvæði og endurnýja leiktæki.
- betri aðstöðu til göngu, hjólreiða og notkun almenningssamganga, s.s. stígatengingar, lýsingu, lagfæringu gönguleiða.
Nánari upplýsingar
- Skoða hugmyndir á Betri Reykjavík
- Nánari upplýsingar um fyrirkomulag skiptingar fjármuna eru á Hverfidmitt.is