Miðvikudaginn 2. nóvember verður haldið upp á hinn árlega félagsmiðstöðvadag fyrir börn og unglinga í Reykjavík.
Markmið félagsmiðstöðvadagsins er að vekja athygli á því uppbyggilega starfi sem þar fer fram og bjóða gestum og gangandi að kynnast því með eigin augum. Yfirskrift dagsins að þessu sinni er Framtíðin er núna.
Dagskrá félagsmiðstöðvanna verður fjölbreytt í tilefni dagsins en þar má bæði kynna sér hefðbundin viðfangsefni og taka þátt í margs konar uppákomum.
Í félagsmiðstöðinni 105 í Hlíðum verður hægt að fræðast um „hvað er þetta trúnó?“, keppa í Rocket League, læra ný spil og gæða sér á veitingum.
Í Buskanum í Laugardal verður gestum boðið að koma og spila bingó, horfa á dansatriði og taka leik í pool eða borðtennis.
Unglingar í félagsmiðstöðinni Sigyn í Grafarvogi munu kynna starf félagsmiðstöðvarinnar fyrir gestum, hægt verður að taka þátt í skemmtilegum þrautum, hlýða á söngatriði og sjá framlag Rimaskóla í hæfileikakeppninni Skrekk.
Hægt verður að njóta ljúfra tóna í boði Dj-ráðsins í félagsmiðstöðinni Fókus í Grafarholti og skella sér í hinn sívinsæla Pógó-leik.
Í félagsmiðstöðinni Hólmaseli í Breiðholti verða unglingar með skemmtiatriði, hægt verður að koma og spila FIFA17 og gæða sér á gómsætri súkkulaðiköku og kakó.
Sjá yfirlit yfir félagsmiðstöðvar í Reykjavík þar sem kynna má sér dagskrá og opnunartíma.
Félagsmiðstöðvadagurinn er haldinn á öllu landinu fyrir tilstilli SAMFÉS, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi, en hann hefur verið haldinn hátíðlegur á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2005.
Kíkið endilega við og verið hjartanlega velkomin. Börn, unglingar og frístundaráðgjafar bíða spennt eftir að fá ykkur í heimsókn!