Það hefur lengi verið vitað að þegar börn með einhvers konar sérstöðu passa ekki í „kassann“ á kerfið erfitt með takast á við það. Nýútkomin skýrsla ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga, annað og þriðja þjónustustig, staðfesti það sem fagfólk og aðstandendur hafa lengi vitað. Kerfið virkar ekki alltaf rétt. Börn eru allt of lengi á biðlistum og á meðan gerist oft lítið eða ekkert í þeirra málum, þroska þeirra og námi.
Málþingið er haldið með það að fyrir augum að skoða hvað sé hægt að gera, eiga samtal við sem flesta hlutaðeigandi og bæta verklag og þjónustu við börnin sem þurfa á að halda. Við vitum hver vandinn er, nú þarf að leysa hann. Lausnaþingið fer fram í Skriðu, Stakkahlíð, í sal menntavísindasviðs Háskóla Íslands, fimmtudaginn 28. apríl frá kl. 14-17 og er ætlað fagfólki jafnt sem foreldrum og öðrum áhugasömum. Aðgangur er ókeypis.
Skráning fer fram hér. Einnig má fylgjast með Facebookviðburðarsíðu þingsins.
Drög að dagskrá
Kl. 14 – Jakob Guðmundur Rúnarsson, Ríkisendurskoðun, kynnir niðurstöður skýrslunnar Geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga.
Kl. 14.15 – Amanda Watkins, aðstoðarforstjóri Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir, kynnir úttekt á framkvæmd skóla án aðgreiningar hér á landi sem Evrópumiðstöðin annast á þessu ári. Hún kynnir einnig lauslega starfsemi Evrópumiðstöðvarinnar.
Kl. 14.35 – Kristín Björnsdóttir, dósent við HÍ, og Haukur Guðmundsson fjalla um skóla án aðgreiningar.
Kl. 14.55 – Inga Birna Sigfúsdóttir, Sjónarhóli, fjallar um lausnamiðaða teymisvinnu.
Kl. 15.15 – Kaffihlé
Kl. 15.25 – Kristín María Indriðadóttir, verkefnastjóri fjölgreinadeildar grunnskóla Hafnarfjarðar, fjallar um vinnu með börnum með fjölþættar þarfir.
Kl. 15.45 – Foreldrar barna í vanda segja frá reynslu sinni.
Kl. 16.00 – Umræður – pallborð þátttakenda
Eftirtalin samtök standa fyrir lausnaþingi um næstu skref:
SAMFOK, ADHD samtökin, Barnaheill – Save the Children á Íslandi, Einhverfusamtökin, Félag skólastjórnenda í Reykjavík, Heimili og skóli, Landssamtökin Þroskahjálp, Olnbogabörn, Sjónarhóll, Umboðsmaður barna Umhyggja og UNICEF
Vinsamlegast vekjið athygli á viðburðinum meðal foreldra í ykkar skóla.
Bestu kveðjur,
Björn Rúnar Egilsson
Verkefnastjóri hjá Heimili og skóla og SAFT