Austurríski ljósmyndarinn Katharina Fröschl-Roßboth sýnir myndir sem hún tók meðan hún dvaldi á listasetrinu í júní 2016. Myndirnar frá Íslandi urðu henni innblástur að öðrum verkum á sýningunni, hugmyndir kviknuðu við austanverðan Skagafjörð sem hún vann með þegar heim til Vínarborgar var komið.
Katharina Fröschl-Roßboth er menntuð í ljósmyndun, kvikmyndagerð, leiklist og miðlun. Eftir að hafa starfað við kvikmyndagerð, leikstjórn og myndvinnslu í Vínarborg og New York gerðist hún sjálfstætt starfandi ljósmyndari árið 2008. Margar mynda hennar hafa birst í tímaritum og dagblöðum.
Hún hefur haldið sýningar á Íslandi, í Þýskalandi, Austurríki, Búlgaríu og Litháen og gaf nýlega út bók með portrettmyndum, en margar myndanna eru hluti langtímaverkefna ljósmyndarans. Í daglegum störfum segir hún að sér gefist kærkomin tækifæri til að uppgötva nýja staði, hitta einstakar manneskjur og kynnast ólíkum menningarheimum og lifnaðarháttum.
Sýningin stendur yfir frá 15. júní til 31. ágúst, hana má skoða á opnunartíma safnsins, mán-fim 10:00-19:00 og fös 11:00-19:00.