Jóhann Arnar Finnsson í 10-bekk Rimaskóla sigraði á Skákmóti Rimaskóla 2016 eftir harða baráttu við systkinin Nansý og Joshua Davíðsbörn.
Skákmótið var nú haldið í 23. skiptið og mættu 27 nemendur skólans til leiks. Tefldar voru sex umferðir og mótið var allan tímann jafnt og spennandi. Jóhann Arnar sem vann nú mótið annanð árið í röð hlaut 5,5 vinninga af 6 mögulegum. Nansý Davíðsdóttir varð í öðru sæti með 5 vinninga og tapaði aðeins skákinni gegn Jóhanni Arnari i 4. umferð.
Joshua bróðir hennar sem er í 5. bekk varð 3. á mótinu eftir að vera jafn Jóhanni Arnari fyrstu fimm umferðirnar. Hann tapaði fyrir systur sinni í lokaumferð. Arnór Gunnlaugsson 5. bekk kom í mark jafn Joshua að vinningum. Hann er einn af 10 efnilegum skákmönnum 5. bekkjar sem hafa verið í þjálfun hjá Birni Ívari Karlssyni og Helga Ólafssyni í vetur.
Valgerður Jóhannesdóttir varð í örðu sæti stúlkna og Sigríður Steingrímsdóttir í 4. bekk varð þriðja. Alls tóku 9 stúlkur þátt í mótinu eða 33% þátttakenda. Að vanda voru eftirsótt verðlaun í boði og hlutu 12 þátttakendur gjafabréf upp á Domino´s pítsu.
Jóhann Arnar fékk afhenta tvo glæsilega verðlaunagripi í mótslok, annar þeirra er farandbikar með nöfnum allra skákmeistara Rimaskóla frá upphafi.
Þar er nafn Hjörvars Steins Grétarssonar oftast ritað eða alls 7 sinnum og nafn Olivers Arons Jóhannessonar þrívegis.