Skákdeild Fjölnis eflist með hverju ári, en deildin var stofnuð árið 2004 og kom sér upp í 1. deild á þremur árum. Þar hefur A sveitin átt fast sæti frá árinu 2007 ef frá er talið eitt ár í 2. deild. Deildin hefur haldið vel utan um sína skákmenn og notið þess að þurfa lítið sem ekkert að skipta inn á í A sveit.
Metnaður þeirra 8 – 9 sem sveitina skipa liggur í því að fá að tefla allar umferðirnar. A sveitin var nýkomin úr velheppnaðri Tyrklandsferð þar sem lið á vegum Umf. Fjölnis var að taka þátt í 1. sinn á Evrópumóti. Evrópumótið fór fram í Antalya í Tyrklandi. Það var ekki að sjá neina ferða-eða keppnisþreytu í mannskapnum heldur þvert á móti baráttugleði og góð úrslit. Fjölnismenn unnu þrjár viðureignir í 1. deild, gerður eitt jafntefli og töpuðu einni viðureign. Sveitin hefur 3. vinninga forskot á næstu sveit sem er A sveit Taflfélags Reykjavíkur.
Víkingasveitin leiðir í 1. deild en þar eru um borð 6 stórmeistarar innlendir og erlendir. Sveit Hugins er í 2. sæti. Fjölnismenn stefna að sjálfsögðu að því að halda dampi í síðari hluta mótsins, standa vel að vígi varðandi að verja 3. sætið. Fjölnisskákmenn eiga eftir að tefla við Ofur-Víkingana en hinar viðureignirnar þrjár eru gegn skáksveitum í neðri hluta 1. deildar. Stigahæsti skákmaður Íslands Héðinn Steingrímsson stóð sig best allra og fékk 3,5 vinninga af 4 á 1. borði.
Nýliðinn og eini erlendi skákmaður Fjölnsimanna í þessum fyrri hluta, Daninn Jesper Thybo, Evrópumeistari U18, stóð líka fyrir sínu og hlaut 3,5 vinninga eins og Héðinn en tefldi einni skák meira. Aðrir liðsmenn eru Dagur Ragnarsson (2), Oliver Aron Jóhannesson (3,5) og Jón Trausti Harðarson (2,5), allir fv. nemendur Rimaskóla, Davíð Kjartansson (3) hetja frá EM, Sigurbjörn Björnsson (2,5), Jón Árni Halldórsson (2) og hinn taplausi Tómas Björnsson (1,5/2) sem tefldi líka í 3. deild og að sjálfsögðu kom hann taplaus þar úr þremur skákum.
B sveit Fjölnis sem teflir í 3. deild virðist ætla að endurheimta sæti sitt í 2. deild. Sveitin kom taplaus frá fyrri hluta mótsins, vann tvær viðureignir og gerði tvö jafntefli. Í sveitinni eru 5 ungir og uppaldir skákmenn úr Fjölni ásamt traustum og reynslumiklum skákmönnum, þeim Tómasi Björnssyni, Erlingi Þorsteinssyni og Sveinbirni Jóinssyni sem að þessu sinni tefldi í öllum umferðum og hlaut 75% árangur. Sveinbjörn hefur lítið teflt með Fjölnismönnum sl. ár vegna vinnu en reyndist B sveitinni góður liðsauki að þessu sinni. Þau Dagur Andri Friðgeirsson og landsliðskonan Hrund Hauksdóttir tefldu bæði tvær skákir og skiluðu 100% árangri. Efnileg, jöfn og skemmtileg skáksveit þarna á ferðinni.
Loks ber að geta þess að Skákdeild Fjölnis sendi ungmennasveit til leiks í 4. deild. Þarna eru á ferðinni nemendur í 5. – 8. bekk Rimaskóla og Foldaskóla sem eru ákaflega áhugasamir við æfingar innan deildarinnar. Það háði sveitinni nokkuð að þrír skákmenn í þeirra röðum lentu í svæsinni ælupest og gátu ekki teflt eins mikið og þeir vildu. Einn þeirra var 1. borðs maður sveitarinnar, Joshua Davíðsson, sem tefldi afar vel í 1. umferð og landaði glæsilegum sigri en síðan ekki söguna meir.
Það er mikil tilhlökkun meðal Fjölnismanna að takast á við síðari hluta mótsins, A sveitar að halda 3. sætinu og B sveitar að koma sér að nýju upp í 2. deild. Barna-og unglingastarfið i rúman áratug er að skila sér ef marka má skáksveitirnar þrjár sem taka þátt í Íslandsmótinu og framtíðin er sannarlega björt í Grafarvogshverfi innan skákdeildar Fjölnis.
Helgi Árnason formaður skákdeildar Fjölnis