Kvennalið Fjölnis vann frábæran sigur á FH í Olísdeildinni í handknattleik í gærkvöldi en leikur liðanna var háður í Dalhúsum. Lokakaflinn var æsispennandi en þegar 30 sekúndur voru til leiksloka jöfnuðu FH-stúlkur leikinn og Fjölnir hafði boltann það sem eftir lifði leiksins. Fjórum sekúndum fyrir leikslok skoraði Berglind Benediktsdóttir sigurmark Fjölnis og urðu lokatölur leiksins, 26-25.
Fjölnisstúlkur eru með átta stig að loknum átta leikjum, hafa unnið fjóra og tapað fjórum. Fín staða á liðinu sem á svo sannarlega framtíðina fyrir sér. ÍBV og Grótta eru efst með 14 stig.
Næsti leikur liðsins verður á Akureyri á laugardaginn kemur á móti KA/Þór sem er eina liðið sem enn hefur ekki unnið leik til þessa í mótinu.