Fjörugir 60 manna kórtónleikar eru einsdæmi

Haldnir í Grafarvogskirkju 24. nóvember

Karlakór Grafarvogs og kvennakórinn Söngspírurnar halda sameiginlega hausttónleika í Grafarvogskirkju fimmdudagskvöldið 24. nóvember nk. og hefjast tónleikarnir kl. 19.30. Þetta er í fimmta skipti sem kórarnir koma sameiginlega fram á tónleikum í Grafarvogskirkju og hafa þessir viðburðir jafnan verið mjög vel sóttir. Einsdæmi er að svo stór blandaður kór syngi létta tónlist á tónleikum.

Efnisskrá tónleikanna verður fjölbreytt. Kórarnir munu syngja bæði innlend og erlend lög hvor í sínu lagi, en einnig munu þeir syngja saman nokkur íslensk lög, m.a. úr smiðju einnar ágætustu hljómsveitar á Íslandi fyrr og síðar; Stuðmanna. Þar að auki munu kórarnir syngja saman tvær vinsælar syrpur, önnur með tónlist úr söngleiknum Abba en hina úr My Fair Lady, en báðar eru syrpurnar klassísk meistaraverk.

Karlakór Grafarvogs var stofnaður árið 2011 en Söngspírurnar árið 2014, en stofnandi og stjórnandi beggja kóranna er Íris Erlingsdóttir söngkennari og kórstjóri.

Meðleikari með kórnum er Einar Bjartur Egilsson á píanó, en auk hans leika með kórunum þeir Birgir Steinn Theodórsson á bassa, Gísli Gamm á trommur og Þórður Árnason á gítar sem saman mynda hina ágætustu hljómsveit.

Söngfólk kóranna beggja er ríflega 60 manns og er álíka margt í hvorum. Þessir tónleikar eru í raun óvenjulegur viðburður, enda er langt síðan svona stór kór hefur haldið tónleika í Reykjavík með tónlist við allra hæfi. Það er einstakt að hægt sé að flytja jafn skemmtilega tónlist með lögum úr smiðju Abba eða þá fallegu lögin úr My Fair Lady með 60 manna kór – og hvað þá þegar kemur að nokkrum þekktustu lögum Stuðmanna.

Það verður tilkomumikið að heyra í kórunum hljóma saman í Grafarvogskirkju fimmtudagskvöldið 24. nóvember og eru gestir hvattir til að mæta snemma því von er á góðri aðsókn. Aðgöngumiðar fást við innganginn og er miðaverði stillt í hóf, en miðinn kostar kr. 4.000,-.

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.