Fjölnismenn eru komnir í toppsætið í Pepsídeild karla í knattspyrnu eftir frábæran sigur á KR, 3-1, á Extravellinum í kvöld. Fjölnir verður í efsta sætinu að minnsta kosti í einn sólarhring en FH á leik inni gegn Val á morgun og getur með sigri skotist í efsta sætið að nýju.
KR-ingar byrjuðu betur í leiknum í Grafarvogi í kvöld þegar Michael Præst kom vesturbæjarliðinu yfir. Mínútu fyrir lok fyrri hálfleiks jafnaði Martin Lund Pedersen fyrir Fjölni.
Fjölnismenn voru hættulegri eftir sem á síðari hálfleikinn leið og komust yfir á 53. mínútu með marki frá Gunnari Má Guðmundssyni. Það var síðan Marcus Solberg sem innsiglaði sigur Fjölnis með glæsilegu skallamarki á 72. mínútu.
Byrjun Fjölnismanna er frábær í deildinni og virðist liðið hafa alla burði til að vera í toppbaráttunni í sumar.
Sjá fleiri myndir hérna….