Fjölnir hafði mikla yfirburði gegn Þrótti í viðureign liðanna í Pepsídeild karla í knattspyrnu á Extravellinum í Grafarvogi í kvöld. Fjölnir sigraði í leiknum, 2-0, og hefði sigurinn getað orðið miklu stærri því Fjölnir sótti án afláts í leiknum en markvörður Þróttar átti stórleik.
Ingimundur Óskarsson skoraði fyrra mark Fjölnis um miðjan fyrri hálfleik og Þórir Guðjónsson það síðara úr víti á 73. mínútu.
Þróttur missti leikmann út af skömmu fyrir hálfleik og léku eftir það manni færri það sem eftir lifði leiksins. Staða liðanna í deildinni er ólík, Fjölnir í bullandi baráttu um Evrópusæti en Þróttarar berjast fyrir lífi sínu í deildinni.
Fjölnir hefur aldrei áður verið með jafnmörg stig í deildinni en liðið hefur leikið einstaklega vel í sumar. FH-ingar standa afar vel að vígi í deildinni eftir sigur á Fylki í Árbænum og það ætlar fátt að koma í veg fyrir sigur Hafnarfjarðarliðsins í deildinni í ár.
Baráttan um Evrópusæti er hörð en Fjölnir er í öðru sæti með 34 stig, jafnmörg stig og Breiðablik en með betra markahlutfall. Valur er í fjórða sætinu með 31 stig.
Þremur umferðum er ólokið í deildinni. Leikirnir sem Fjölnir á eftir er gegn KR í Frostaskjólinu 18. September, Stjörnunni 25. september í Grafarvogi og síðasti leikurinn er gegn Breiðablik í Kópavogi 1. október.
Myndir frá leiknum má skoða hérna……