„Þórður Ingason kemur fram í aukaspyrnu og Óli Palli smellhittir boltanum á hann og honum er framlengt á mig. Það er smá sól, ég sé boltann og pota honum inn.“
Þannig lýsir Ingimundur Níels Óskarsson jöfnunarmarki sínu fyrir Fjölni gegn Fylki í Pepsi-deild karla í knattspyrnu, en liðin gerðu 1:1-jafntefli í Grafarvoginum í kvöld. Jöfnunarmark Ingimundar kom eftir aukaspyrnu Ólafs Páls Snorrasonar rétt fyrir framan miðlínu á síðustu andartökum leiksins.
„Þetta var fyrsta markið í sumar og það er alltaf gott að skora,“ sagði Ingimundur ennfremur en þvertekur þó fyrir að það hafi verið sætt að skora gegn gömlu félögunum. Ingimundur gekk til liðs við Fjölni frá Fylki í júlí.
„Þeir þurfa virkilega á þremur stigum að halda og það er ljótt að gera gömlum félögum svona óleik. Við erum sjálfir í ákveðinni baráttu og það þýðir ekkert að vorkenna þeim.“
Ingimundur kom inn af varamannabekknum um miðjan seinni hálfleik og var sáttur við eigin frammistöðu. „Ég átti nokkrar hættulegar sendingar inn í teiginn. Þannig að jújú, þetta var fín fimma bara,“ sagði Ingimundur glottandi. Eins og fram kemur á MBL.is