Fjölnir – Íþróttafólk og Fjölnismaður ársins

Íþróttafólk og Fjölnismaður ársins 2021 var heiðrað fimmtudaginn 16. desember við hátíðlega athöfn í Keiluhöllinni.

Hátt í 80 manns úr öllum deildum voru viðstödd þegar aðalstjórn félagsins verðlaunaði og heiðraði afreksfólkið okkar.

Við viljum sérstaklega þakka Keiluhöllinni fyrir frábært samstarf, ljósmyndurum félagsins þeim Baldvini Erni Berndsen og Þorgils Garðari Gunnþórssyni og tæknimanni kvöldsins Gunnari Jónatanssyni.

Íþróttakarl Fjölnis 2021

Íþróttakarl ársins: Ólafur Ingi Styrmisson (körfuknattleiksdeild)

Ólafur Ingi hefur verið burðarás upp alla yngri flokka hjá Fjölni síðustu ár og hefur í vetur sýnt að hann er einn af bestu leikmönnum 1. deildar karla. Ólafur, sem er fyrirliði meistaraflokks karla, er mikill leiðtogi, innan vallar sem utan og setur hag liðsins ávallt í fyrsta sæti. Hann hefur verið framúrskarandi með yngri landsliðum Íslands síðustu ár auk þess að vera á meðal fremstu leikmanna í sínum árgangi. Hann stefnir hátt í körfubolta. Ólafur hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari með liðum sínum í Fjölni og í bæði skiptin verið valinn mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar, síðast núna í vor þegar drengjaflokkur varð Íslandsmeistari. Meistaraflokkslið Fjölnis hefur sýnt undanfarið að það á góða möguleika á að ná inn í úrslitakeppni í vor og valda usla þar, þó ungir séu, jafnvel komast upp í Subway deildina ef heppni og elja blandast vel saman á réttum tíma. Ljóst er að Ólafur mun leika lykilhlutverk í þeirri vegferð og verður spennandi að fylgjast með honum og liðinu næstu mánuði. Ólafur er framúrskarandi íþróttamaður og mikil fyrirmynd.

Íþróttakona Fjölnis 2021

Íþróttakona ársins: Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir (körfuknattleiksdeild)

Emma Sóldís er lykilleikmaður í meistaraflokki kvenna en Fjölnisstúlkur hafa sýnt í vetur að þær eru til alls líklegar í Subway deildinni en Emma hefur spilað stórt hlutverk í árangri liðsins, bæði í vörn og sókn. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Emma náð miklum árangri í körfubolta. Hún hefur leikið stórt hlutverk með yngri landsliðum Íslands hingað til. Á Norðurlandamótinu í sumar var hún byrjunarliðsmaður í U18 ára liði Íslands þrátt fyrir að hafa verið á yngra ári. Þar var hún stigahæst íslensku leikmannanna og næst stigahæst á mótinu. Emma Sóldís var í fyrsta sinn núna í haust valin í A-landslið Íslands, aðeins 17 ára gömul. Emma lék sinn fyrsta A-landsleik í nóvember þar sem hún skoraði sín fyrstu stig fyrir landslið Íslands. Emma hefur ávallt verið meðal fremstu leikmanna í sínum árangi enda setur hún frábært fordæmi með eigin dugnaði bæði á æfingum sem og í leikjum. Hún lætur aldrei neitt eftir sig liggja. Emma Sóldís er samviskusöm og virkilega dugleg að æfa og vinna í sínum leik. Emma er virkilega góður karakter með góða nærveru sem t.d. endurspeglaðist í þjálfun hennar á sumarnámskeiðum Fjölnis þar sem hún náði mjög vel til krakkanna. Klárt er að það verður spennandi að fylgjast með henni í framtíðinni.

Fjölnismaður ársins 2021

Fjölnismaður ársins: Sarah Buckley

Fjölnismaður ársins er Sarah Buckley. Sarah hefur verið viðloðandi sunddeildina í fjöldamörg ár og átt þrjá sundmenn sem hafa allir náð góðum árangri. Sarah gekk til liðs við deildina sem iðkandi fyrir nokkuð mörgum árum þegar hún fór að synda með garpahópnum okkar. Sarah keppti núna í haust bæði á Íslandsmóti garpa og Norðurlandameistaramótinu sem haldið var hér á landi og vann til verðlauna á þeim báðum. Sarah fór fljótlega að sinna dómgæslu á sundmótum fyrir deildina og hefur á þeim árum náð sér í réttindi sem yfirdómari og er á lista yfir alþjóðlega ræsa hjá FINA (Alþjóðlega sundsambandið) og hefur þar með rétt til að dæma á alþjóðlegum mótum. Sarah hefur farið fyrir Íslands hönd og dæmt á Smáþjóðaleikunum árin 2015 á Íslandi, 2017 í San Marínó og 2019 í Svartfjallalandi auk þess að vera dómari/ræsir á Norðurlandameistaramóti sem haldið var hér á landi. 

Þrátt fyrir að Sarah eigi ekki lengur sundmann hjá deildinni hefur hún haldið áfram að vinna fyrir okkar hönd á sundmótum hvort heldur sem er Íslandsmeistaramótum eða félagsmótum. Sá tími sem hún ver til vinnu fyrir okkar hönd er töluverður og erum við óendanlega þakklát fyrir hennar framlag fyrir okkar hönd. Það er hverju íþróttafélagi nauðsyn að hafa svona einstaklinga innan sinna raða, þ.e. þá sem vinna sjálfboðaliðastörf í þágu félagsins og halda því áfram eftir að börnin feta inn á nýjar slóðir.

Afreksfólk deilda 2021

Fimleikar:

Fimleikakona: Lilja Katrín Gunnarsdóttir

Fimleikakarl: Sigurður Ari Stefánsson

Frjálsar:

Frjálsíþróttakona: Helga Þóra Sigurjónsdóttir

Frjálsíþróttakarl: Bjarni Anton Theódórsson

Handbolti:

Handboltakona ársins: Kolbrún Arna Garðarsdóttir

Handboltakarl ársins: Elvar Otri Hjálmarsson

Íshokkí:

Íshokkíkona ársins: Harpa Dögg Kjartansdóttir

Íshokkíkarl ársins: Steindór Ingason

Karate:

Karatekona ársins: Eydís Magnea Friðriksdóttir

Karatekarl ársins: Gabriel Sigurður Pálmason

Knattspyrna:

Knattspyrnukona ársins: Sara Montoro

Knattspyrnukarl ársins: Jóhann Árni Gunnarsson

Körfubolti:

Körfuboltakona ársins: Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir

Körfuboltakarl ársins: Ólafur Ingi Styrmisson

Listskautar:

Skautakona ársins: Júlía Sylvía Gunnarsdóttir

Skautakarl ársins: Marinó Máni Þorsteinsson

Skák:

Skákkona ársins: Sigrún Tara Sigurðardóttir

Skákkarl ársins: Tristan Fannar Jónsson

Sund:

Sundkona ársins: Ingunn Jónsdóttir

Sundkarl ársins: Kristinn Þórarinsson

Tennis:

Tenniskona ársins: Eva Diljá Arnþórsdóttir

Tenniskarl ársins: Hjalti Pálsson

Þetta er í 32. sinn sem valið fer fram. Í fyrra voru þau Fanney Ragnarsdóttir, körfuknattleiksdeild og Hans Viktor Guðmundsson, knattspyrnudeild valin íþróttafólk ársins og Gunnar Jónatansson var valinn Fjölnismaður ársins.

Hlekkur á myndband af íþróttakarli ársins https://www.facebook.com/ungmennafelagidfjolnir/videos/1084091582433872

Hlekkur á myndband af íþróttakonu ársinshttps://www.facebook.com/ungmennafelagidfjolnir/videos/435709081482486

Hlekkur á myndband af Fjölnismanni ársinshttps://www.facebook.com/ungmennafelagidfjolnir/videos/195470982798838

Hlekkur á myndband af afreksfólki deildahttps://www.facebook.com/ungmennafelagidfjolnir/videos/221907886758783

Bestu kveðjur,

Arnór Ásgeirsson – Íþróttastjóri Fjölnis

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.