Fjölmenni við opnun nýs Foldasafns í Spöng

IMG_8544Fjölmargir lögðu leið sína í Spöngina í Grafarvogi í gær til að vera viðstaddir opnun nýs útibús Borgarbókasafnsins í nýju, glæsilegu og miklu stærra húsnæði. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnaði safnið við hátíðlega athöfn.

Stefnt er að því að Foldasafn verði miðstöð menningar og mannlífs í Grafarvogi en jafnframt griðastaður og íverustaður íbúa þar sem unnt er að afla sér þekkingar, afþreyingar og hvíldar frá daglegu amstri.

Pálína Magnúsdóttir borgarbókavörður kom inn á þetta í ávarpi sínu en einnig Dagur B. Eggertsson sem ræddi um mikilvægi bókasafna og lesturs fyrir alla.

Borgarstjóri sagði m.a. í opnunarræðu sinni að það væri vel við hæfi að Foldasafn opnaði nú í húsnæði sem áður hýsti líkamsræktarstöðina World Class því ekki væri síður mikilvægt að þjálfa heilann með lestri bóka um allt milli himins og jarðar.

Einar Már Guðmundsson skáld flutti hugvekju þar sem hann ræddi um hlutverk bókasafna í samfélaginu, mikilvægi skáldskaparins fyrir manneskjuna og andlega fátækt þeirra sem fara á mis við innihald ljóða og skáldskapar. Einar Már er búsettur í Grafarvogi og hefur verið fastagestur í Foldasafni í mörg ár. Hann notaði tækifærið og þakkaði starfsfólki safnsins fyrir frábæra þjónustu og margar góðar ábendingar um lesefni.

Góð lestraraðstaða

Í safninu er góð lestraraðstaða fyrir unga sem aldna en í næsta nágrenni við safnið er stór framhaldsskóli og safnið er einnig á mörkum fjögurra grunnskólahverfa í Grafarvogi. Safnið hefur nú verið flutt í miðju hverfisins þar sem mun fleiri hafa tækifæri til þess að nota það að staðaldri en í gamla safninu var mjög takmörkuð lestraraðstaða.

Ekki var annað að sjá en að Grafarvogsbúar tækju nýja safninu fagnandi. Stúlknakór Grafarvogskirkju söng nokkur lög undir stjórn Margrétar Pálmadóttur og liðsmenn úr Sirkus Íslands léku listir sínar. Þá var boðið upp á léttar veitingar við opnunina.

IMG_8579_vefurSýningin Frystikista í fjörunni með verkum eftir Gunnhildi Þórðardóttur opnaði við sama tækifæri. Á sýningunni eru nýleg verk unnin á þessu ári og á árinu 2013 en titill sýningarinnar vísar í samnefnt ljóð listamannsins og er gagnrýni á neyslusamfélagið.
Foldasafn Borgarbókasafns hefur undanfarin 18 ár verið staðsett í frekar þröngu húsnæði  í kjallara Grafarvogskirkju. Við flutninginn skapast ótal tækifæri til að breyta áherslum í rekstri bókasafnsins og bæta þjónustuna en húsnæðið að Spönginni 41 er um 1300 m2 að stærð.

Á nýju ári verður boðið upp á fjölbreytta menningarstarfsemi fyrir alla aldurshópa og má þar nefna leshringi fyrir börn og fullorðna, prjónakaffi, fjölskyldustundir fyrir foreldra með lítil börn, föndursmiðjur, fræðsluerindi, stuttmyndadaga og ýmis konar listsýningar.
Næg bílastæði eru við safnið, strætisvagnar 6, 18, 24 og 26 stoppa allir við Spöngina og er safnið auk þess  staðsett steinsnar frá verslunum, heilsugæslu, félagsmiðstöðinni Borgum og Borgarholtsskóla.

[su_button url=“https://www.facebook.com/pages/Grafarvogsb%C3%BAar/111119802396520?sk=photos_stream“ target=“blank“ style=“3d“ background=“#1065bd“ radius=“0″]Myndir frá opnun..[/su_button]

 

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.