Nemendur og starfsmenn Rimaskóla skörtuðu flestir grímu-og furðufatabúningum á öskudagshátíð skólans.
Nemendur byrjuðu daginn með því að útbúa öskupoka með aðstoð kennara og starfsmanna. Í nestistíma mættu foreldrar með skúffukökur í hundruða tali. Forsvarsmenn MS voru rausnarlegir og gáfu öllum 550 nemendum skólans mjólkurdrykk til að skola kökunum niður.
Efnt var til grímuballs í hátíðarsal Rimaskóla þar sem góð stemmning myndaðist og allir viðstaddir tóku þátt í dansinum. Rúsínan í pylsuendanum var síðan þegar Alda Dís sigurvegari í „Iceland Got Talent 2015“ gaf allt í og söng vinsælustu lögin og endaði á Júróvisionlaginu sínu „Augnabliki“.
Nemendur voru vel með á nótunum í öllum lögunum og tóku vel undir sönginn. Öskudagsgleðinni lauk með pítsuveislu sem skólinn bauð upp á.
Um hádegisbilið var skóla lokið og flestir nemendur stefndu niður í bæ að syngja og sníkja sér nammi eins og hefðin segir til um.