Einar Hansberg Árnason sló gær heimsmet

Rúv greinir frá þessu á vef sínum

Einar Hansberg Árnason sló í gær heimsmet þegar hann lyfti samtals 528.090 kílóum í réttstöðulyftu á einum sólarhring. Heimsmetið tileinkar hann baráttunni fyrir velferð barna.

Einar var lengst af með 60 kíló á stönginni en undir morgun létti hann í 45 kíló. Lyfturnar urðu samtals 9.287. Metið verður sent heimsmetabók Guinnes til staðfestingar sem mesta þyngd sem lyft er á einum sólarhring. Um hádegisbil tók Einar seinustu lyftuna við mikinn fögnuð viðstaddra í Crossfit Reykjavík í Faxafeni. Hann setti markið á að slá fyrra met sem var 521 tonn á einum sólarhring og því bætti hann það um rúmlega 7 tonn.

Hann segist vera virkilega þakklátur fyrir þann stuðning og undirtektir sem hann hefur fengið, bæði hjá þeim sem studdu hann í verkefninu og frá almenningi.

„Eftir á var þetta bara mjög gaman, en þetta reyndi á vissulega og það voru erfiðir kaflar, eins og klukkan 9 í morgun þá sigldi skipið í strand í smá stund, en við fundum leið í kringum það, ef maður bara setur hægri fótinn fram fyrir þann vinstri og vinstri fram fyrir hægri þá kemst maður ýmislegt,“ segir Einar.

Einar vill með framtakinu vekja fólk til umhugsunar um velferð barna. Fólk þurfi að hlusta á börnin sín og bæta samskipti við þau. Hann segir að þó að afrekið hafi reynt á sé skrokkurinn í góðu ásigkomulagi.

„Ég er fínn, en það er örugglega eitthvað Endorfín sem er að flæða um líkamann, en ég er mjög stífur,“ 

Ætlarðu að taka æfingu á morgun?

Nei, en ég hugsa að það sé bara af því að konan mín leyfir mér það ekki,“ segir Einar að lokum og hlær.


Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.