Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur og þjóðfræðingur hefur sent frá sér sjö sögulegar skáldsögur sem gerast á fyrri öldum á Íslandi, Grænlandi og Bretlandseyjum. Tvær þær síðustu, Auður og Vígroði, segja frá ævi Auðar djúpúðgu og aðdraganda landnáms á Íslandi. „Þykjast menn varla dæmi til vita að einn kvenmaður hafi komist í brott úr þvílíkum ófriði með jafnmiklu fé og föruneyti.“ Þannig farast sögumanni Laxdælu orð um ferð Auðar frá Skotlandi til Íslands í lok níundu aldar. Vilborg vinnur nú að þriðju og síðustu bókinni um landnámskonuna þar sem hún spinnur þráðinn út frá þessum þekktu orðum.
Í erindi sínu mun Vilborg segja frá skrifum sínum um Auði djúpúðgu í máli og myndum og einnig nýjustu bók sinni sem kom út í fyrra, sannsögunni Ástin, drekinn og dauðinn. Hún hefur vakið mikla athygli og hlotið lof fyrir að fjalla um ástvinamissi og sorg á áhrifamikinn en um leið jarðbundinn hátt. Þar segir Vilborg frá vegferð sinni og eiginmanns síns með sjúkdómnum sem þau vissu að myndi draga hann til dauða í blóma lífsins og deilir með lesendum því sem sorgin hefur kennt henni: mikilvægi þess að lifa í sátt og viðtekt í núinu og vanda sig við að elska, lifa og deyja.
Í leiðinni er röð fræðandi fyrirlestra sem haldin er í Borgarbókasafninu Spönginni síðasta mánudag í hverjum mánuði, frá kl. 17.15 til 18. Viðburðurinn er liður í Viku bókarinnar.
Umsjón: Sunna Dís Másdóttir, deildarbókavörður, sunna.dis.masdottir@reykja