Heimili og skóli – landssamtök foreldra taka undir áskorun Barnaheilla um gjaldfrjálsan grunnskóla á Ísland. Líkt og segir í áskoruninni eiga öll börn rétt á grunnmenntun án endurgjalds samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland hefur lögfest. Þar er jafnframt kveðið á um að ekki megi mismuna börnum sökum stöðu þeirra eða foreldra þeirra, svo sem vegna efnahags.
Talsverður kostnaður getur leynst í þessum innkaupalistum og ef skoðaðir eru t.a.m. innkaupalistar á netsíðum þá getur kostnaður þar verið á bilinu 2.500-7.500 kr. fyrir barn í 1. bekk. Þá er skólataska ekki meðtalin. Þegar fleiri en eitt barn eru í fjölskyldunni eykst kostnaðurinn. Sumir skólar eru með sameiginlegan sjóð sem notaður er til ritfangakaupa. Þá greiða foreldrar t.d. um 500-1000 kr. á ári og skólinn sér um innkaupin. Þetta fyrirkomulag hefur víða mælst vel fyrir. Þá má einnig velta fyrir sér kostnaði við skólamáltíðir og frístundaheimili sem eru líka rekin af sveitarfélögunum. Tíðkast hefur að námsmenn og einstæðir foreldrar fái afslátt af leikskólagjöldum og mætti hafa sama háttinn á með frístundaheimilin til að jafna aðgengi barna að þeim. Gjaldtaka fyrir slíkt starf getur þó verið hindrun fyrir marga foreldra og getur þar með stuðlað að mismunun í aðgengi barna að tómstunda- og félagsstarfi.
Kostnaður vegna námsgagna er þó ekki eini ófyrirséði kostnaðurinn sem mætir foreldrum á haustin. Ýmiss kostnaður fylgir skólaferðum eins og t.d. á Reyki og Laugar en sá kostnaður er nú að mestu í höndum foreldra. Það þýðir m.a. að börn með sérþarfir fá ekki þann stuðning sem þau þurfa til að geta nýtt sér þessar ferðir. Foreldrafélag á höfuðborgarsvæðinu tók saman þann kostnað sem fylgt getur þessum ferðum og var viðmiðunarkostnaður á bilinu 25-30.000 kr á barn.
Í lögum um grunnskóla frá 2008 (nr. 91, 31. gr) kemur fram að kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum skuli veitt nemendum þeim að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja þá eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu. Þó kemur fram í lögunum að opinberum aðilum sé ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír, án þess að í raun sé skilgreint hvað persónuleg not þýðir. Við tökum undir þann skilning Barnaheilla að öll gögn sem nemandi þarf að nota til skólagöngu sinnar séu í raun hluti af námsgögnum en ekki svokölluð persónuleg gögn. Því ætti skólinn með réttu að útvega þau gögn sem nemandi þarf til að stunda nám sitt.
Við fögnum því frumkvæði Barnaheilla – Save the Children á Íslandi og tökum undir áskorun þess efnis að 31. gr. grunnskólalaga verði breytt og skýrar reglur settar um að óheimilt sé að krefja foreldra um innkaup á gögnum, greiðslu fyrir gögn sem nota á vegna skólagöngu barnanna eða fyrir aðra starfsemi á vegum skóla. Á hinn bóginn geta foreldrafélög staðið fyrir söfnun eða styrkt starf skólans með einum eða öðrum hætti en það ætti þó að vera valkvætt. Einnig ætti að reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir mismunun barna þegar kemur að félagsstarfi barna á vegum skólans, t.d. þegar farið er í skólaferðir.