Frístundamiðstöðvar borgarinnar bjóða upp á fjölbreytta dagskrá í vetrarfríinu fyrir alla fjölskylduna, frítt verður í sundlaugar á tilgreindum tíma og menningarstofnanir bjóða upp á fjölskylduleiðsögn, skemmtidagskrá og smiðjur.
Í vetrarfríinu fá fullorðnir í fylgd með börnum frítt inn á Kjarvalsstaði, Ásmundarsafn,Hafnarhús, Árbæjarsafn, Landnámssýninguna í Aðalstræti og Sjóminjasafnið. Á mörgum söfnum verður leiðsögn um þær sýningar sem settar hafa verið og boðið upp á leiki sem tengjast þeim. Í Borgarbókasafninu verður boðið upp á skapandi smiðjur, leiki, bingó og víkingaleiki og fl. Þá verða skíðasvæði í borgarlandinu opin.
Meðal þess sem í boði verður á vegum frístundamiðstöðvarinnar Ársels er karníval og smiðjur þar sem búa má til brjóstsykur, grímur og fleira. Í Frostaskjóli verður m.a. haldið upp á þrjátíu ára afmæli frístundamiðstöðarinnar með afmæliskarókí, Gufunesbæ býður m.a. upp á útieldun og klifur í turninum, Kampur verður með veislu í fjölmenningareldhúsinu, Kringlumýri helgar vetrarfrísdagana góðgerðarstarfi fyrir Unicef og Miðberg í Breiðholti býður upp á ratleik og skapandi smiðjur m.m.