Vatnsendaskóli Íslandsmeistari barnaskólasveita árið 2020

Það var mikil tilhlökkun í Rimaskóla í dag þegar fyrsta stóra skákmótið fór fram eftir að Covid herlegheitin riðu yfir heimsbyggðina. Íslandsmót barnaskólasveita (1-7. bekkur) fór þá fram en alls mættur 26 sveitir til leiks að þessu sinni.

Krakkarnir komu til leiks fullir tilhlökkunar og skemmtileg tilþrif sáust á mörgum borðum. Úr varð eitt mest spennandi Íslandsmót barnaskólasveita í manna minnum! Fyrir lokaumferðina voru tvær sveitir efstar og jafnar og tvær til viðbótar aðeins hálfum vinningi á eftir. Því var ljóst að lokaumferðin myndi skipta hreinlega öllu máli!

Áður en farið er yfir gang mála er rétt að hrósa foreldrum fyrir að fylgja vel fyrirmælum um að fylgja ekki börnunum inn í keppnissal og eins voru krakkarnir mjög duglegir og mótahaldið gekk allt mjög vel!

Sveitirnar sem voru í baráttunni fyrir lokaumferðina voru Landakotsskóli og Vatnsendaskóli sem fóru inn í lokaumferðina með 20 vinninga og Háteigsskóli og Rimaskóli aðeins hálfum vinningi á eftir með 19,5 vinning. Snemma í lokaumferðinni stefndi í að Háteigsskóli væri að vinna 4-0 sigur og setja mikla pressu á efstu tvö liðin en andstæðingar þeirra náðu að hrifsa af þeim einn vinning og því ólíklegt að 3-1 sigur væri nóg til að ná efstu sveitum.

Landakotsskóli og Vatnsendaskóli voru í mikilli baráttu við sína andstæðinga í lokaumferðinni  en eftir gríðarlega sviptingar tókst þeim báðum að vinna ótrúlega 4-0 sigra eftir að 4. borð hjá báðum sveitum sneri töpuðu tafli í unnið!

Því varð að koma til úrslitaviðureignar um Íslandsmeistaratitilinn og réttinn til að taka þátt í Norðurlandamóti barnaskólasveita. Skemmst er frá því að segja að Vatnsendaskóli voru mun sterkari í úrslitaviðureigninni og unnu 3-1 og 3-1 og því alls 6-2 í þessari tvöföldu úrslitaviðureign.

Glæsilegur sigur sem var vel fagnað enda spennan gríðarleg!

Landsbyggðarverðlaunin komu í hlut Brekkuskóla sem komu til leiks alla leið frá Akureyri en önnur og þriðju verðlaun komu bæði í hlut Flúðaskóla, a- og b-sveitar.

Nánari úrslit má finna á chess-results

Fleiri myndir hérna…….


Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.