Uppskeruhátíð Fjölni 2022

Uppskeruhátíð Fjölnis fór fram í kvöld að viðstöddum 100 manns. Veitt voru verðlaun fyrir íþróttaafrek ársins, gull- og silfurmerki sjálfboðaliða ásamt vali á íþróttakarli og -konu. Þar að auki var Fjölnismaður ársins heiðraður fyrir ómetanlegt starf í þágu félagsins.

Fimleikadeild

Fimleikakarl: Sigurður Ari Stefánsson

Sigurður Ari eða Siggi átti glæsilegt fimleikaár. Hann varð íslandsmeistari unglinga í fjölþraut í áhaldafimleikum. Á árinu var hann einnig valinn til þátttöku í fjölmörgum erlendum verkefnum á vegum Fimleikasambands Íslands. Við óskum honum alls hins besta í framtíðinni og hlökkum til að fylgjast með honum í framtíðinni.

Fimleikakona: Lilja Katrín Gunnarsdóttir

Lilja Katrín var valin í úrvalshóp unglinga og í kjölfarið á því í æfingahóp fyrir Norðurlandamót unglinga sem fram fór hér á landi í lok júní. Við óskum henni alls hins besta í framtíðinni og hlökkum til að fylgjast með henni í framtíðinni.

Frjálsíþróttadeild

Frjálsíþróttakarl: Bjarni Anton Theódórsson

Bjarni Anton hefur æft frjálsar íþróttir í fjöldamörg ár. Hann hefur einbeitt sér að styttri hlaupum og keppir aðallega í 200 og 400 m hlaupum. Á þessu ári hljóp hann best 400 m á tímanum 49,69 sek sem er jafnframt besti tíminn á árinu í 400 m hlaupi. Hann var einnig í boðhlaupssveit Fjölnis á Meistaramóti Íslands í 4×400 m boðhlaupi og vann Íslandsmeistaratitil með sigri sveitarinnar.

Frjálsíþróttakona: Vilhelmína Þór Óskarsdóttir

Vilhelmína hefur æft frjálsar íþróttir frá unga aldri og hefur síðustu ár einbeitt sér að keppni í hlaupum. Hefur hún náð mjög góðum árangri í 60, 100, 200 og 400 m hlaupum. Hún á fimmta besta tímann á árinu í 200 og 400 m hlaupi. Vilhelmína eða Minna eins og hún er alltaf kölluð starfar sem þjálfari yngri iðkenda hjá frjálsíþróttadeildinni.

Handknattleiksdeild

Handboltakarl ársins: Óðinn Freyr Heiðmarsson

Óðinn Freyr stimplaði sig strax inn í ungt og efnilegt Fjölnislið þegar hann gekk í raðir félagsins árið 2019. Hann býr yfir mikilli baráttugleði og dugnaði ásamt því að vinnusemi hans er til fyrirmyndar bæði á æfingum og í keppnum. Hann var lykilmaður í vörn og sókn þegar liðið var hársbreidd frá sæti í efstu deild á síðustu leiktíð.

Handboltakona ársins: Þyri Erla Sigurðardóttir

Þyri Erla er uppalin í Fjölni og spilaði þar alla yngri flokka áður en hún fór að leika með meistaraflokknum. Þyri hefur gríðarlega marga kosti bæði innan vallar og utan og er frábær fyrirmynd fyrir alla iðkendur. Hún er mjög metnaðarfull og er alltaf tilbúin að leggja meira á sig til að bæta sig.

Íshokkídeild

Íshokkíkarl ársins: Martin Simanek

Með ástríðu og gleði, ásamt leiðtogahæfni hefur Martin sýnt okkur öllum að hann er mikil fyrirmynd og leikmaður með mikinn metnað fyrir íshokkídeild Fjölnis. Hann leggur sig ávallt fram og er fyrsti maður til að bjóða fram aðstoð sína.

Íshokkíkona ársins: Kolbrún Garðarsdóttir

Dugnaðarforkur og valkyrja sem berst af miklum eldmóð á ísnum en rífur upp gleðina með drengskap og gleði utan íssins.

Karatedeild

Karatekarl ársins: Gabríel Sigurður Pálmason

Gabríel er fyrirmyndar iðkandi. Einbeittur og duglegur karatemaður. Í ár hefur hann dregið heim silfurpeninga fyrir frammistöðu sína í kata á GrandPrix mótaröðinni, á Íslandsmeistaramóti unglinga og brons fyrir frammistöðu sína á RIG. Metnaður og Heilbrigði eru þau Fjölnisgildi sem Gabríel hefur staðið fyrir í starfi sínu innan karatedeildarinnar.

Karatekona ársins: Eydís Magnea Friðriksdóttir

Sem afrekskona átti Eydís frábært ár. Oftar en ekki kom hún heim með ekki einn, heldur tvo verðlaunapeninga eftir mót. Hún varð GrandPrix meistari í kata og svo bikarmeistari á Bikarmótaröð Karatesambands Íslands. Metnaður er það gildi Fjölnis sem Eydís hefur lifað í starfi sínu innan deildarinnar.

Knattspyrnudeild

Knattspyrnukarl ársins: Lúkas Logi Heimisson

Lúkas Logi Heimisson er afar fjölhæfur og sóknarþenkjandi leikmaður. Í gegnum tíðina hefur Lúkas leikið 9 landsleiki yfir yngri landslið Íslands. Þá hefur hann nú þegar spilað 52 leiki og skorað í þeim 14 mörk fyrir meistaraflokk félagsins þrátt fyrir ungan aldur. Lúkas er mikil fyrirmynd yngri leikmanna og á bjartan feril framundan sem knattspyrnumaður.  

Knattspyrnukona ársins: Elvý Rut Búadóttir

Elvý Rut Búadóttir er uppalinn leikmaður hjá Fjölni. Elvý er öflugur miðvörður sem hefur verið lykilmaður í liðinu lengi en hún hefur spilað 179 leiki fyrir Fjölni og skorað 2 mörk. Hún smitar út frá sér jákvæðni og vinnusemi og er alltaf tilbúin að gefa allt sem hún á inn á vellinum. Elvý er frábær leikmaður og mikil fyrirmynd yngri leikmanna.

Körfuknattleiksdeild

Körfuboltakarl ársins: Karl Ísak Birgisson

Karl Ísak er uppalinn Fjölnismaður, mikil þriggjastigaskytta sem hefur verið burðarás í sínum aldursflokki auk þess að vera í lykilhlutverki hjá eldri árgöngum hjá Fjölni. Í vor varð hann bæði bikarmeistari og  Íslandsmeistari með drengjaflokki auk þess sem hann var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitaleiks Íslandsmótsins þá með 25 stig og 10 fráköst.

Körfuboltakona ársins: Dagný Lísa Davíðsdóttir

Dagný Lísa Davíðsdóttir var valin mikilvægasti leikmaður Subway deildar kvenna á síðasta tímabili þar sem hún leiddi Fjölni til deildarmeistaratitils, þess fyrsta hjá félaginu í boltagreinum í efstu deild. Einnig var hún valin í A-landslið Íslands á síðasta tímabili. Dagný Lísa er framúrskarandi leikmaður en ekki síður góður karakter sem nýtur virðingar liðsfélaga sem ekki er síður mikilvægt í hópíþróttum.

Listskautadeild

Skautakona ársins: Júlía Sylvía Gunnarsdóttir

Júlía Sylvía er landsliðskona í Junior flokki. Hún hefur staðið sig vel á árinu og tekið miklum framförum. Hún stóð sig eftir væntingum í vor og keppti meðal annars á Reykjarvíkurleikunum og Norðurlandamóti í Danmörku. Á Íslandsmeistaramótinu stóð hún sig sérstaklega vel og varð Íslandsmeistari með mikilli bætingu og einu af hæstu skorum sem Íslendingur hefur náð.

Skákeild

Skákkarl ársins: Jóhann Arnar Finnsson

Jóhann Arnar var einn af nemendum Rimaskóla sem hóf að æfa skák á sínum fyrstu grunnskólaárum. Eftir að grunnskólagöngu lauk hóf Jóhann Arnar að leiðbeina á hinum vinsælu skákæfingum Fjölnis og leiðir það starf ásamt Helga Árnasyni. Hann var m.a. í 6 manna skáksveit Fjölnis sem tefldi á EM félagsliða í Austurríki í sumar.

Skákkona ársins: Lisseth Acevedo Méndez

Liss eins og hún er alltaf kölluð er landsliðskona Íslands í skák. Hún tefldi með íslenska kvennalandsliðinu á Ólympíuskákmótinu á Indlandi nú í sumar og vann kvennaflokkinn á Alþjóðlega helgarskákmótinu í Gautaborg nú í haust. Liss er ein af fjórum konum frá Fjölni sem tilheyra landsliðshópi Íslands.

Sunddeild

Sundkarl ársins: Kristján Gylfi Þórisson

Kristján er stigahæstur sundmanna í afrekshóp og stóð sig einkar vel á árinu. Kristján hefur æft með félaginu meira og minna allan sinn feril og því er hann vel að þessum titli kominn.

Sundkona ársins: Coco Margaret Johansson

Coco er ung og efnileg sundkona og hefur æft með Fjölni síðustu 2 ár. Hún er stigahæst sundkvenna í afrekshóp og hefur staðið sig gríðarlega vel síðan hún kom til félagsins.

Tennisdeild

Tenniskona ársins: Saulé Zukauskaité

Saulé átti mjög gott ár og náði frábærum og eftirtektarverðum árangri. Þar má helst nefna sigur í  einliðaleik á U14 móti í Georgíu, Íslandsmeistari í liðakeppni meistaraflokks og 1. sæti í einliðaleik á U16 Íslandsmóti utanhúss. Hún er dugnaðarforkur og mikil fyrirmynd.

Silfurmerki

193 Álfheiður Sif Jónasdóttir (fimleikar)

Heiða hefur verið í stjórn deildarinnar frá árinu 2017 og starfar enn. Heiða er orkumikill stjórnarmaður sem hefur mikinn áhuga á því að gera starf fimleikadeildarinnar betra fyrir iðkendur.

194 Gunnar Bjarnason (fimleikar)

Gunni hefur verið í stjórn deildarinnar frá árinu 2018 og starfar enn. Hann tók við sem formaður í lok árs 2019 og sinnti því starfi til 2021. Á mótum er hann rödd deildarinnar þar sem hann fer oftar en ekki á kostum með skemmtilegri framkomu.

195 Helga Ásdís Jónasdóttir (fimleikar)

Helga hefur verið í stjórn deildarinnar frá árinu 2018 og starfar enn. Hún er núverandi formaður deildarinnar. Hún hefur áður sinnt gjaldkerastörfum ásamt því að vera mjög kröftug í mótahaldi og stokkið inn í þjálfun þegar mest reynir á.

196 Ágúst Jónsson (frjálsar)

Ágúst hefur starfað í stjórn deildarinnar í fjöldamörg ár og hefur undanfarin fjögur ár sinnt gjaldkerastörfum. Hann hefur verið afar virkur í mótahaldi og dómgæslu ásamt því að halda vel utan um elsta viðburð félagsins, sjálft Fjölnishlaupið.

197 Halldór Torfi Pedersen (handbolti)

Halldór hefur verið óþreytandi í sjálfboðaliðastarfi deildarinnar frá árinu 2017. Hann tók snögglega við formannsstarfinu í barna- og unglingaráði og hefur leyst það með sóma ásamt því að vera alltaf til staðar þegar á þarf að halda.

198 Hans Liljendal Karlsson (handbolti)

Hans hefur á undanförnum árum verið í stjórn deildarinnar og starfað sem formaður barna- og unglingaráðs. Þar vann hann af mikilli eljusemi og dugnaði að stækkun deildarinnar ásamt því að ganga í öll verk sem þörf var á.

199 Margrét Theodórsdóttir (handbolti)

Margrét hefur sinnt störfum í barna- og unglingaráði ásamt því að hún hefur verið meðlimur stjórnar. Sem meðlimur í barna- og unglingaráði hefur hún haft umsjón með öllum almennum rekstri með aðaláherlsu á styrktarumsóknir, gerð kynningarefnis og samskipti við þjálfara.

200 Róbert Línberg Runólfsson (handbolti)

Róbert hefur verið virkur í barna- og unglingaráði í 7 ár. Róbert er mjög öflugur sjálfboðaliði, ef vantað hefur sjálfboðaliða á meistaraflokksleiki hvort heldur er kvenna eða karla þá er Róbert fyrstur til að bjóða fram sína aðstoð. Hann hefur einnig sinnt málum er varðar mótahald, launamál og fleira.

201 Esther Hlíðar Jensen (karate)

Það eru kannski ekki margar íþróttir þar sem foreldrar elta börnin inn í íþróttina og fara að æfa samhliða þeim. En það gerði Esther með sanni og svo þegar sonurinn heltist úr lestinni hélt hún áfram að æfa og hefur nú auk þess um fimm ára skeið lagt félaginu lið sem gjaldkeri deildarinnar og stjórnarmanneskja.

202 Páll Haraldsson (karate)

Páll er einn af þeim sem hefur lengi verið til fyrirmyndar innan félagsins sem og innan karateíþróttarinnar. Hann hóf æfingar hjá Fjölni árið 2007 og hefur síðan verið óslitið að æfingum og störfum hjá félaginu. Hann tók jafnframt að sér þjálfun árið 2016 og er nú vinsæll þjálfari og stuðningsmaður keppenda á mótum.

203 Sif Ólafsdóttir (karate)

Það eru ekki margir sem hafa unnið jafn ósérhlífið starf fyrir hönd karatedeildarinnar. Sif hefur tekist á við sum af erfiðari verkefnum deildarinnar frá því hún kom til starfa. Sif er nefnilega þessi dæmigerða karatemamma sem tók deildina upp á arma sér og hefur svo haldið áfram að hjálpa deildinni sem stjórnarkona löngu eftir að börnin hennar hættu æfingum.

204 Sigríður Þórdís Pétursdóttir (karate)

Sigríður hefur starfað við karatedeildina síðan 2014 og þjálfar nú unglinga og fullorðna í framhaldshópum. Hún hefur æft karate hjá Fjölni síðan hún var örlítil písl árið 2006 en er nú með 2. dan svart belti auk dómararéttinda.

205 Hjörleifur Þórðarson (knattspyrna)

Hjölli hefur setið í stjórn deildarinnar samfleytt frá árinu 2018. Á þeim tíma hefur hann tekið þátt í mörgum uppbyggilegum verkefnum fyrir deildina. Í dag er Hjörleifur formaður meistaraflokks ráðs karla og sinnir því af mikilli yfirvegun og dugnaði þrátt fyrir krefjandi aðstæður á köflum.

206 Marinó Þór Jakobsson (knattspyrna)

Marinó hefur setið í stjórn deildarinnar samfleytt frá árinu 2018. Þar sem hann var m.a. formaður meistaraflokksráðs kvenna í tvö ár. Líkt og Hjölli þá byrjaði Marinó sem iðkandi hjá félaginu ungur að árum og spilaði upp alla flokka félagsins.

207 Guðleif Hafdís Indriðadóttir (körfubolti)

Gulla Dís hefur síðustu árin skilað ómetanlegu starfi fyrir deildina. Hún hefur setið í stjórn deildarinnar með hléum en þegar hennar hefur notið við hefur hennar sýn á rekstur deildarinnar, ráðningu þjálfara og samskipti við leikmenn verið verðmæt síðustu árin.

208 Kristján Rafnsson (körfubolti)

Stjáni Rafns er sá sem hefur verið lengst í kringum starfið af þeim sem nú eru að starfa við deildina. Hann missir nánast aldrei af heimaleikjum meistaraflokkana þar sem hann hjálpar til við uppsetningu og tiltekt. Að auki hefur Stjáni keyrt meistaraflokkana báða í ófáar keppnisferðir, hvort sem er til Ísafjarðar, Akureyrar, Egilsstaða eða Hafnar í Hornafirði í öllum tegundum af veðrum og vindum.

209 Magnús Ingi Björnsson (körfubolti)

Maggi stattari hefur síðustu árin tekið tölfræðivinnuna í kringum leiki meistaraflokkana föstum tökum. Einnig gengur Maggi vasklega til verks við uppsetningu leikja og móta, í raun langfljótastur af okkur öllum. Maggi er klárlega haukur sem allar íþróttadeildir myndu vilja hafa í sínu horni.

210 Olga Björney Gísladóttir (körfubolti)

Olga hefur setið í aðalstjórn Fjölnis síðustu árin en hennar naut við í stjórn Körfuknattleiksdeildar árin á undan. Skipulag, fagmennska og vönduð vinnubrögð eru þættir sem koma upp í hugann þegar Olga er annars vegar.

211 Styrmir Böðvarsson (körfubolti)

Styrmir hefur verið lengi viðriðinn stjórnarstörf hjá Fjölni, bæði hjá deildinni auk þess að hafa setið í aðalstjórn félagsins um tíma. Styrmir er sannkallaður þúsundþjalasmiður en hann hefur verið heimaleikjastjóri hjá meistaraflokkunum síðustu árin með glæsibrag auk þess sem hann hefur tekið að sér að keyra liðin í útileiki þegar svo ber undir.

212 Eva Björg Bjarnadóttir (listskautar)

Eva hefur helgað sig að starfi deildarinnar. Hún byrjaði ung að æfa listskauta og þegar hún var orðin nógu gömul byrjaði hún samhliða æfingum að þjálfa í skautaskólanum. Hún hefur alltaf sýnt hvað skautadeildin skiptir hana miklu máli og hefur lagt sitt að mörkum að byggja hana upp og ítrekað farið út fyrir það sem ætlast er til af starfinu hennar til að gera meira og betur.

213 Rakel Hákonardóttir (listskautar)

Rakel hefur verið ötull sjálfboðaliði í gegnum árin. Hún hefur verið viðloðandi listskauta allt frá árinu 2005, bæði í foreldrafélaginu og einnig setið í stjórn í nokkur ár. Rakel er ósérhlífin, metnaðarfull og einstaklega dugleg. Hún er alltaf viljug að hlaupa til og hjálpa þegar kemur að mótum eða sýningum.

214 Ágúst Guðmundsson (sund)

Ágúst hefur unnið mjög svo óeigingjarnt starf í þágu félagsins og einkum sem stjórnarmaður í sunddeild. Ágúst er toppmaður af skaganum sem hefur gríðarlegt tengslanet og án hans væri stjórnarstarfið mun erfiðara. Hann er maður með meiru og sannarlega með hjartað á réttum stað.

Gullmerki

35 Þorgrímur H. Guðmundsson (frjálsar)

Toggi hefur verið viðloðandi starf frjálsíþróttadeildarinnar í 10 ár, lengst af sem formaður deildarinnar. Hann er mjög öflugur í öllu starfi og hefur stýrt deildinni af miklum sóma. Hann hefur verið mjög virkur í mótahaldi, bæði komið að undirbúningi móta og unnið á mótum. Það hefur verið mikill fengur fyrir deildina að hafa notið starfskrafta Togga.

36 Þorgils Garðar Gunnþórsson (handbolti)

Þorgils hefur starfað sem sjálfboðaliði við myndatöku fyrir handknattleiksdeild í rúman áratug. Eftir hann liggja ógrynnin öll af myndum bæði liðsmyndum og myndum af leikjum. Hann var sæmdur silfurmerki árið 2017 og finnst okkur vel við hæfi að hann fái gullmerki að þessu sinni.

37 Laufey Jörgensdóttir (knattspyrna)

Laufey hefur sinnt miklu og góðu sjálfboðaliðastarfi frá árinu 2008. Hún hefur setið í barna- og unglingaráði og stjórn deildarinnar í fjölda ára þar sem hún hefur sinnt málum tengd bæði yngri flokkum og meistaraflokkum. Laufey er þeim kosti gædd að geta drifið alla í kringum sig áfram með metnaði, krafti og dugnaði sínum að vopni.

38 Trausti Harðarson (knattspyrna)

Trausti hefur sinnt miklu og góðu sjálfboðaliðastarfi í yfir áratug fyrir Fjölni og það í fleiri en einni íþróttagrein á þeim tíma. Trausti hefur verið óþreytandi í að safna styrkjum fyrir deildina, hann er núverandi formaður meistaraflokksráðs kvenna og hefur átt stóran þátt í aukinni og betri umgjörð í kringum meistaraflokk kvenna.

39 Anna Podolskaia (tennis)

Anna hefur verið þjálfari hjá deildinni í mörg ár. Eftir nokkurra ára pásu kom hún aftur að fullu inn í starfið, bæði sem þjálfari og sjálfboðaliði. Anna hefur þjálfað okkar besta íþróttafólk frá 2000. Hún hefur yfirgripsmikla reynslu og þekkingu úr tennisheiminum og við erum heppin að hafa hana í okkar teymi.

Hérna má sjá myndir frá Baldvin Örn Berndsen.

Myndir frá Þorgils G:

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.