Sveitarfélögin sex á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu í byrjun mánaðarins samninga um innleiðingu Borgarlínu – léttlesta- eða hraðvagnakerfis um höfuðborgarsvæðið.
Borgarlínan hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið. Sveitarfélögin vinna nú með hugmyndir hvar biðstöðvar og leiðir hennar muni liggja en endanlegar tillögur koma frá innlendum og erlendum sérfræðingum í byrjun næsta árs.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir það tímamót að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, öll sem eitt, séu með þessu að setja stefnuna á hágæða almenningssamgöngur, hraðvagna eða léttlestir.
Sveitarfélögin horfa til þess að Borgarlínan dragi úr umferðartöfum í framtíðinni og ljóst er að til mikils er að vinna. Á næstu 25 árum er búist við að íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgi um a.m.k. 70.000. Það jafngildir íbúafjölda í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi í dag og að óbreyttu fjölgar einkabílum á götunum um 40.000 á þessum tíma. Verði ekkert að gert mun tafatími í umferðinni margfaldast. Umferðarspár sýna að þrátt fyrir mjög miklar fjárfestingar í nýjum umferðarmannvirkjum myndu umferðartafir aukast verulega ef þeim fjölgar ekki sem nýta sér aðra ferðamáta en einkabíl. Þess vegna eru afkastamiklar almenningssamgöngur mikilvægt lífsgæðamál fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins.
Þorsteinn R. Hermannsson samgöngustjóri Reykjavíkur segir gott léttlesta- og hraðvagnakerfi auka afkastagetu samgöngukerfisins verulega, ein akrein Borgarlínu geti afkastað á við 2-4 akreinar fyrir almenna umferð. Borgarlínan verði lykilverkefni næstu ára í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu og jafnframt hryggjarstykkið í skipulags- og uppbyggingaráætlunum. Reynsla annarra þjóða sýni að svæði nálægt borgarlínunni verði eftirsótt til búsetu og starfsemi.
Áslaug Hulda Jónsdóttir formaður bæjarráðs Garðabæjar, Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur, Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri Seltjarnarness, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs og Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Kostnaðurinn við að koma kerfinu upp mun hlaupa á tugum milljarða og víða erlendis kemur ríkið inn í fjármögnun verkefna af þessari stærðargráðu. Á vef samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) kemur fram að stofnun sjálfstæðs félags sem tekst á við uppbygginguna sé í undirbúningi. Þar má einnig sjá skýrslur og kynningarefni tengt verkefninu > skoða vefsíðu ssh.is/borgarlina