Styrkur svifryks (PM10) var líklega yfir heilsuverndarmörkum í Reykjavík í gær Töluverður vindur var þá, þurrar götur og engar líkur á úrkomu. Í dag, 3. júní, er áfram búist við þurrviðri og nokkrum vindi sem getur þyrlað upp ryki, sérstaklega við miklar umferðargötur.
Í gær var hálftímagildi svifryks við mælistöðina á Grensásvegi 147 míkrógrömm á rúmmetra og 735 míkrógrömm á rúmmetra í mælistöð sem staðsett er við Bíldshöfða 2. Sólarhrings heilsuverndarmörkin eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.
Allir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum ættu að forðast útivist í nágrenni stórra umferðagatna. Sú ráðlegging gildir einnig um börn.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til.
Hægt er að fylgjast með styrk svifryks á og annarra mengandi efna á www.reykjavik.is/loftgaedi. Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík m.a. mælistöð á Grensásvegi. Loftgæðafarstöðvar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er nú staðsettar við leikskólann Öskju við Nauthólsveg 87 og í Ártúnsbrekku við Bíldshöfða 2.