Skákmenn Umf. Fjölnis – ungmenni á öllum aldri

A sveitin

Skemmtileg skákhelgi að baki. Fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga fór fram með  hefðbundnu sniði í Rimaskóla. Skólinn rúmar nokkuð auðveldlega umfangið og allan þann fjölda skákmanna og gesta sem mættir eru til keppni og skemmtunar. 

Við Fjölnismenn mættum líkt og í fyrra með fjórar skáksveitir til leiks. Einkennandi fyrir okkar sveitir er að liðsmenn eru flestir Fjölnismenn allt frá upphafi eða í langan tíma. Aðeins einn nýliði í ár, Tinna Kristín Finnbogadóttir sem naut sín vel í nýjum félagsskap og prýðir sannarlega okkar glæsilega ungmennahóp. Til að standa undir nafni ungmennafélagsandans þá reynast allir liðsmenn ungir í anda hvort sem um var að ræða okkar ástsæla Finn Kr. Finnsson 84 ára eða Emilíu Emblu B. Berglindardóttur 7 ára skákprinsessu. Bæði elska þau að tefla og styrkja heilastöðvarnar til framtíðar. Ef til vill tímamót á Íslandsmóti, 77 ára aldursmunur á liðsfélögum í hópíþrótt. Önnur líkleg tímamót í sögu Skákdeildar Fjölnis og íslenskrar skákhreyfingar þegar á þremurr efstu borðum 2. deildar skáksveitar röðuðust þrjár ungar konur sem héldu merki B sveitarinnar á lofti. Sveitin skilaði 5. sæti eftir fyrri hlutann í stað þess 8. eins og spáð var fyrirfram og það alls ekki út í loftið. 

A sveit Fjölnis er enn eitt árið skemmtileg blanda ungra framtíðarskákmanna og stabílla reynslubolta. Sveitin mætti heldur veikari til leiks í samanburði við 2018 sem skýrist af því að Davíð Kjartansson tók sér skákhvild og ekki fyllt í skarðið. A sveitin fékk ólíkt í fyrra erfiðari dagskrá í fyrri hluta Íslandsmótsins. Undirritaður liðsstjóri stefndi á 20 vinninga eða 50% vinningshlutfall og við það stóðu Fjölnismenn með sinni alkunnu samheldni og þeim metnaði að tefla með A sveit Fjölnis. Enn eitt árið hefur liðstjóri A sveitar ekki þurft að skipta inn á í 8 manna uppstilltu liði.

Á fyrsta borði tefldi að þessu sinni Eistlendingurinn Kaido Külaots, sterkasti skákmaður Eistlands sem síðast tefldi fyrir Grafrvogsliðið árið 2010. Hann tefldi af miklu öryggi og tapaði aðeins fyrir landsliðsmanni okkar Hjörvari Steini,  með afleik í jafnteflisskák. Stjarnan okkar Fjölnismanna og mótsins að mínu mati var hinn tvítugi fv. Evrópumeistari Jesper Thybo sem skilaði 4,5 vinningum án mikillar fyrirhafnar. Stórskemmtileg taflmennska, ekki síst á laugardeginum þegar hann lagði þá Hannes Hlífar og Helga Áss. Sigurbjörn J. Björnsson er okkar Aron Einar og átti góða seriu í 5 baráttuskákum. Tommi Björns heldur áfram að verja 8. borðið taplaus og annar reynslubolti Jón Árni Halldórsson hækkaði mest allra A sveitar manna í þessari lotu. 

Íslandsmót skákfélaga er skáhreyfingunni til mikils sóma. Skákmenn eru baráttuglaðir fyrir hönd sinna félaga, heilsast sem vinir og félagar. Kynslóðabilið ósýnilegt og kærumál eða önnur leiðindi grafin í gleymskunnar dá.  

Tinna, Hrund og Sigg
Jesper Thybo
Finnur og Embla

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.