Skákbúðir skákdeildar Fjölnis í boði skákdeildarinnar og Reykjavíkurborgar

Sælir Skákforeldrar og skákmeistarakrakkar í Fjölni:

Skákdeild Fjölnis hefur í nokkur skipti staðið fyrir skákbúðum yfir tvo daga og eina nótt úti á landsbyggðinni, Úlfljótsvatni, Vatnaskógi og í Vestmannaeyjum.

Í öll skiptin hefur vel tekist til. Síðast var efnt til Skákbúða Fjölnis árið 2017.

 

Á þessu ári 2020 hefur Covid veiran valdið því að margir áhugaverðir viðburðir á vegum Reykjavíkurborgar hafa fallið niður, svo sem Barnamenningarhátíð, Menningarnótt, Listahátið og Grafarvogsdagurinn. Til þess að bæta börnum og unglingum upp þennan missi setti Reykjavíkurborg á fót verkefnið SUMARBORGIN 2020 sem styrkir verkefni og viðburði á vegum einstakra félaga og samtaka. Skákdeild Fjölnis fékk úthlutað einum myndarlegasta styrknum SUMARBORGIN 2020 frá Reykjavíkurborg til að standa fyrir skákbúðum sem öllum börnum og ungmennum Skákdeildar Fjölnis yrði boðið að taka þátt í. 

Í stuttu máli þá mun Skákdeild Fjölnis að sjálfsögðu nýta styrk og stuðning Reykjavíkurborgar og bjóða upp á ókeypis ævintýraferð til Vestmannaeyja þar sem ferðast yrði með Herjólfi til og frá landi, gist í grunnskólanum. Dagskráin yrði blönduð skákkennslu og frjálsum leik, kvöldvöku og út að borða á veitingastað á laugardegi og sunnudegi. 

Nú er bara að bíða aðeins á meðan á takmörkunum sóttvarnarlaga stendur. Skákdeild Fjölnis hefur þegar fengið til liðs við sig í skákbúðirnar þá frábæru skákkennara Helga Ólafsson stórmeistara og skólastjóra Skákskóla Íslands og Björn Ívar Karlsson skákkennara sem báðir tengjast Vestmannaeyjum sterkum böndum æskustöðva auk þess sem liðsmenn Fjölnis verða með í för. 

Það skal tekið fram að skákbúðirnar eru í boði fyrir alla krakka sem æfa með Skákdeild Fjölnis. Við hjá skákdeildinni munum kalla eftir að áhugasamir foreldrar sláist í för með okkur til Eyja og horfum við þá ekki síst til foreldra yngstu skákkrakkanna sem gætu þar með slegið tvær flugur í einu höggi. 

Vonandi verður hægt að koma skákbúðunum á í október en COVID óvissan setur okkur óljós tímamörk. Skákbúðirnar eru einstakur viðburður til gagns og ánægju og ekki síst vegna þess að þær eru ókeypis eins og annað sem Skákdeild Fjölnis stendur fyrir með góðum stuðningi aðila sem eru sannfærðir um gott og árangursríkt skákstarf meðal barna og unglinga í Grafravogi. 

p.s. Kæru foreldrar. Skákdeild Fjölnis er með Facebook síðu þar sem greint verður frá æfingum og öðrum viðburðum skákdeildarinnar í vetur. Vinsamlegast gerist vinir Skákdeildar Fjölnis á FB   😃😅😁


Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.