Sjónhverfingar – Alexandra Vassilikian sýnir í Spönginni
- júní – 2. september
„Málari umfram allt, ljósmyndari að auki. Armeni í grunninn, Rúmeni um tíma, nú Frakki: manneskja á eilífu ferðalagi.“
Svona lýsir listakonan Alexandra Vassilikian sjálfri sér og viðfangsefnum sínum.
Í teikningum og málverkum leitar Alexandra í eigin dulvitund, en einnig í dýpt landslagsins sem umkringir hana á ferðalögum um heiminn. Fjallgarður í Rúmeníu, klettabelti í Portúgal og hraunbreiða á Íslandi verða upphafpunkturinn að því sem hún kallar „leiktjöld hugans“. Við lestur Íslendingasagnanna uppgötvaði Alexandra hugtakið sjónhverfingar sem hún segir lýsandi fyrir listaverk sín, þar sem erfitt er að greina milli minninga, ímyndunar og umhverfis.
Eftir að hafa lokið meistaranámi í myndlist frá listaakademíunni í fæðingarborg sinni Búkarest hefur Alexandra Vassilikian (f. 1946) unnið að listsköpun í stórborgunum Lissabon, London og París, en hún fékk pólitískt hæli í Frakklandi á níunda áratugnum. Síðustu árin hefur hún komið sér upp vinnuaðstöðu í þorpinu Klimmach í Bæjaralandi og leitar þangað úr borgarysnum í æ ríkara mæli. Alexandra Vassilikian hefur haldið sýningar víða um Evrópu og í Kanada og starfað á gestavinnustofum hér og þar. Árið 2013 sýndi hún á Skriðuklaustri, dulmagnaðar ljósmyndir úr þýskum skógi, en nú er það nátturan hið innra og hið ytra sem flæðir um myndflötinn.