Rafrænar íbúakosningar undir merkinu Betri hverfi 2015 verða haldnar í Reykjavík dagana 17. – 24. febrúar nk. Þetta er í fjórða sinn sem slíkar kosningar eru haldnar um verkefni í hverfum borgarinnar en hugmyndirnar að verkefnunum eiga íbúarnir sjálfir.
Allir sem eiga lögheimili í Reykjavík og eru orðnir 16 ára geta tekið þátt í kosningunum. Til að komast inn á kosningavefinn verða íbúar að eiga Íslykil eða rafræn skilríki til auðkenningar og er nauðsynlegt að hafa slík auðkenni tiltæk áður en haldið er á „kjörstað“ í tölvunni sinni eða spjaldtölvu.
Kosið er á milli allt að 20 hugmynda í tíu hverfum borgarinnar.
Hugmyndum að verkefnum í hverfum borgarinnar var safnað í október á síðasta ári og bárust 690 hugmyndir frá íbúum inn á vefinn Betri hverfi 2015 sem var metfjöldi í hugmyndasöfnun fyrir hverfin.
Alls hafa verið verðmerktar hugmyndir að verkefnum fyrir rúmlega 820 milljónir króna en fjárheimild hverfanna er um 300 milljónir á þessu ári.
Í kosningunum forgangsraða íbúar verkefnum í sínum hverfum. Niðurstöður kosninganna eru bindandi fyrir Reykjavíkurborg sem skuldbindur sig til að framkvæma þau verkefni sem kosin eru.
Þegar hafa verið framkvæmd verkefni fyrir 900 milljónir króna sem kosin hafa verið af íbúum í Reykjavík sl. þrjú ár. Með kosningunum núna hefur Reykjavíkurborg alls lagt 1.200 milljónir króna í að framkvæma hugmyndir íbúa í hverfum borgarinnar.
Hvað vilt þú í þínu hverfi?