Ólafur Páll Snorrason, spilandi aðstoðarþjálfari hjá Fjölni í Pepsi-deild karla, mun fá stærra hlutverk hjá félaginu á árinu en hann hefur verið ráðinn afreksþjálfari hjá Grafarvogsliðinu.
Ólafur Páll á að baki yfir 200 leiki í meistaraflokki í efstu deild og er margfaldur Íslands- og bikarmeistari með FH. Hann mun vinna náið með þjálfurum meistaraflokka, yfirþjálfara yngri flokka og aðalþjálfurum 2.-4. flokks hjá Fjölni með það að markmiði að styðja enn frekar við bakið á ungum afreksmönnum.
Auk ýmis konar fræðslu mun tilteknum hópi afreksiðkenda sinnt sérstaklega með ýmis konar séræfingum og námskeiðum. Er ætlunin að viðhalda þannig stefnu Fjölnis að á hverjum tíma séu leikmannahópar meistaraflokka félagsins að umtalsverðu leyti skipaðir uppöldum leikmönnum.
Staða Ólafs Páls sem afreksþjálfara er tilraunaverkefni hjá Fjölni sem mun standa út árið 2016.