Umhverfis- og skipulagssvið fékk í gær afhenta fimm nýja stóra flokkabíla til reksturs og umhirðu borgarlandsins. Valinn hópur starfsmanna þjónustumiðstöðvar og hverfastöðva Reykjavíkurborgar mætti til Kraftvéla og veitti bílunum móttöku.
Bílarnir, sem eru af gerðinni IVECO, voru keyptir hjá Kraftvélum ehf. að undangengnu útboði Reykjavíkurborgar. Heildarverð þeirra með búnaði eru tæpar 60 milljónir.
Bílarnir verða notaðir í verkefni út á hverfastöðvunum og hjá Þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar sem oft er kennd við aðsetur sitt á Stórhöfða. Tveir bílanna fara á hverfastöðina við Jafnasel, tveir á hverfastöðina við Njarðargötu og einn í umferðarskiltadeild á Stórhöfða. Nýju bílarnir leysa af hólmi gömlu appelsínugulu Benz flokkabílana sem hefur verið ekið um götur borgarinnar í mörg ár.