Menningarhús Spönginni, fimmtudag 14. september – laugardag 21. október
Verið velkomin á sýningaropnun 14. september kl. 17
„Hvernig líður þér þegar þú horfist í augu við alla neysluna, þegar dótið sem við gefum börnunum okkar hrannast upp allt í kringum okkur? Hvaða skilaboð erum við að senda þeim og hvers konar framtíð viljum við búa þeim? Erum við að byggja þau upp eða brjóta niður heiminn sem þau ættu að erfa? “
Þessara spurninga spyr listakonan Ísabella Leifsdóttir, sem vill með verkum sínum vekja athygli á ofgnóttinni í samfélagi okkar. Hún sýnir spegla sem hún hefur skreytt með smádóti úr plasti sem var á leið í endurvinnslu. Speglarnir eru fallegir og eigulegir munir, enda tilgangurinn að búa til verk sem fólk vill ekki farga heldur fegra heimili sín með. Einnig eru verkin áminning til neytenda um að hugsa sig um og velja vandlega áður en þeir rétta fram greiðslukortið í verslunum.
Verkin eru gerð úr leikföngum úr plasti, smáglingri og skarti sem er markaðssett fyrir börn. Stór hluti er agnarlítið smádót sem er í raun ekki nytsamlegt til endursölu og er því urðað í náttúrunni þar sem það veldur óhjákvæmilega mengun. Magnið sem kemur inn til endurvinnslustöðva er svo mikið að engin leið er að flokka og endurselja allt sem þangað berst.
Ísabella veltir líka fyrir sér hvaða skilaboð við sendum börnunum okkar með því sem við veljum að gefa þeim. „Hversvegna gefum við börnum byssur, er það til að þau geti æft sig í að fara í stríð? Hvers vegna kaupum við ógurlegt magn af förðunarvörum (gerfi og ekta), glingri og hárskrauti í bleiku og fjólubláu? Þurfa litlar stelpur að æfa sig í að gera sig sætar?“
„Ég nota spegla í grunninn og því þarf fólk bókstaflega að horfast í augu við sjálft sig og neysluna þegar það kemur á sýninguna. Allt efnið (nema málning og lím) er frá Góða hirðinum en starfsfólk þar hefur veitt mér aðgang að efni sem fer til endurvinnslu.“
Ísabella er stjórnarformaður myndlistarfélagsins Litku og hefur tekið þátt í ýmsum samsýningum á vegum félagsins. Þetta er sjöunda einkasýning hennar. Hægt að sjá talsvert af verkum Ísabellu á Facebook undir La Diva Rosa og á Instagram undir @ladivarosaart og #ladivarosa
Listmenntun Ísabellu snýr að tónlist, hún lærði óperusöng í Royal Northern College of Music í Manchester á Englandi, en hefur alltaf lagt stund á myndlist með söngnum og gekk í Myndlistarskóla Kópavogs sem barn.
Ísabella verður með tvær smiðjur í tengslum við sýningu sína, þar sem gamlir hlutir á leið í ruslið fá nýtt hlutverk, nánar auglýst síðar.
Nánari upplýsingar veitir:
Sigríður Stephensen
sigridur.steinunn.stephensen@reykjavik.is
s. 411 6230