Það verður sannkallað sólarsamba á Fjölnisvellinum í kvöld þegar Breiðablik mætir okkur Fjölnismönnum í 15. umferð Pepsi deildar.
Breiðablik er í 9 sæti í deildinni og er það langt fyrir neðan væntingar þeirra fyrir sumarið. Blikarnir gerðu jafntefli við Keflavík í seinustu umferð 4-4 þar sem þeir sýndu mikinn karakter og náðu að jafna leikinn undir lokinn eftir að hafa verið 2-4 undir þegar skammt var til leiksloka. Guðmundur Benediktsson tók við Blikunum þegar lítið var liðið sumars þegar Ólafur Kristjánsson var ráðinn þjálfari Norsjælland í Danmörku. Þekktustu leikmenn Breiðabliks eru Gunnleifur Gunnleifsson (landsliðsmarkvörður), Árni Vilhjálmsson (framherji), Guðjón Pétur Lýðsson, Stefán Gíslason og Arnór Sveinn Aðalsteinsson.
Í seinustu umferð töpuðum við Fjölnismenn fyrir Val á Hlíðarenda 4-3 eftir að hafa verið 3-0 undir í hálfleik og er fyrri hálfleikurinn hugsanlega það slakasta sem við höfum séð til liðsins okkar í sumar. Aron Sig og Viðar Ari komu svo inn í seinni hálfleikinn og gersamlega breyttu spilamennsku liðsins og voru strákarnir einfaldlega óheppnir að fá ekkert út úr leiknum.
Tveir uppaldir Blikar eru í Fjölnisliðinu en það eru þeir Árni Kristinn og Mágnús Páll Gunnarsson, en einnig er Kristó aðstoðarþjálfari Fjölnis fyrrverandi leikmaður Breiðabliks. Það er engin í Blikaliðinu sem hefur einhverja Fjölnis tengingu.
Í seinasta leik gegn Val voru fjölmargir stuðningsmenn Fjölnis sem mættu á leikinn og létu vel í sér heyra. Þetta gaf strákunum mikinn kraft og vona þeir innilega að þeir fái sama stuðning í kvöld frá ykkur.
Það verða grillaðir hamborgarar fyrir leik og í hálfleik og verður special price for you my friend eða 1.000 kr. fyrir eðal hamborgara og ískalda Pepsi.
Allir á völlinn í kvöld, ÁFRAM FJÖLNIR.