Íbúafundir um uppstillingu hugmynda til rafrænna hverfakosninga hafa verið haldnir í hverfum Reykjavíkur að undanförnu en dagana 11.-18. mars n.k.verða haldnar rafrænar hverfakosningar um verkefni í Betri hverfum. Áður en að því kemur hafa verið haldnir kynningarfundir með íbúum til að fara yfir þær hugmyndir sem bárust inn á vefinn Betri hverfi í nóvember. Fundur með íbúum Grafarvogs var haldinn í Miðgarði í vikunni og var hann í alla staði málefnalegur og fræðandi.
Ýmsar tillögur og hugmyndir skutu upp kollinum á fundinum og verður þeim komið áleiðis til borgaryfirvalda og verkefnisins betri hverfi. Fundinn með íbúum Grafarvogs sátu fulltrúar frá Miðgarði og frá verkefninu Betri hverfi. Farið verður yfir allar hugmyndir sem bárust í hverfinu á fundinum, bæði þær sem stillt verður upp í kosningunum og þær sem ekki voru valdar. Á fundunum var hægt að spyrja spurninga um ferlið og koma með athugasemdir.
Þá voru hugmyndir um framtíð og þróun verkefnisins Betri hverfi sérstaklega velkomnar. Allar hugmyndirnar sem kosið verður um verða rækilega kynntar á vef Reykjavíkurborgar og víðar áður en kosningarnar hefjast.