Fjölnir laut í lægra haldi fyrir Selfyssingum í oddaleik liðanna um sæti í Olísdeildinni í handknattleik í Dalhúsum í kvöld. Selfyssingar sigruðu í leiknum, 24-28, eftir að Fjölnir leiddi í hálfleik með tveimur mörkum, 13-11.
Þetta er annað árið í röð sem Fjölnir tapar í oddaleik og var ósigurinn mikil vonbrigði svo ekki sé meira sagt. 700 áhorfendur troðfylltu íþróttahúsið í Dalhúsum.
Fjölnir hafði yfirhöndina lengstum í fyrri hálfleik og þangað til staðan var 18-15 um miðjan síðari hálfleik. Þá hrundi leikur Fjölnismanna og Selfyssingar gengu á lagið og tryggðu sér að lokum fjögurra marka sigur og sigur og um leið sæti í efstu deild á næstu leiktíð.
Fjölnismenn hófu þetta einvígi einstaklega vel og sigruðu tvær fyrstu viðureignirnar. Selfyssingar voru ekki að baki dottnir og gerðu út um rimmuna með þremur sigurleikjum í röð.
Fjölnismenn fóru illa með dauðafæri og sóknarleikur liðsins síðustu 15 mínútur leiksins fór úr böndunum. Liðið sprakk hreinlega og eftirleikur Selfyssinga var auðveldur.
Breki Dagsson var markahæstur hjá Fjölni með fimm mörk og Björgvin Páll Rúnarsson skoraði fjögur mörk.