Bekkjarbræðurnir Joshua Davíðsson og Anton Breki Óskarsson í 4. bekk Rimaskóla hlutu afreks-og æfingabikar skákdeildar Fjölnis sem afhentir voru á lokaæfingu skákdeildarinnar miðvikudaginn 29. apríl. Mikil aðsókn hefur verið á allar skákæfingar vetrarins og þátttakendur alltaf á bilinu 25 – 35.
Helgi Árnason formaður skákdeildar Fjölnis afhenti hina árlegu afreks-og æfingabikara. Joshua fékk afreksbikarinn líkt og í fyrra. Frammistaða hans á æfingunum og á Íslandsmótum hefur verið árangursrík. Hann varð í 1. – 3. sæti á Íslandsmóti barna og var í A sveit Rimaskóla sem vann ótal sigra í vetur, Jólamót SFS og TR, Reykjavíkurmót grunnskóla og Íslandsmót grunnskóla. Anton Breki Óskarsson hefur að mati dómnefndar (HÁ og HÓl) tekið mestum framförum allra í vetur auk þess að mæta á allar æfingar vetrarins. Anton Breki er í sveit Rimaskóla sem vann Íslandsmeistaratitilinn í flokki 1. – 4. bekkjar á Íslandsmóti barna í apríl sl. Svo skemmtilega vildi til að á lokaæfingu Fjölnis urðu þeir Joshua og Anton Breki efstir og jafnir 35 keppenda. Skákmótin á æfingum Fjölnis eru afar vinsæl enda alltaf keppt um fjölda vinninga og dregið í happadrætti. Þeir Dagur Ragnarsson, Oliver Aron og Jón Trausti hafa séð um kennslu á flestum æfingum og tekist vel upp. .