Borgarbúar ganga nú til kosninga á vefnum hverfidmitt.is um ýmsar framkvæmdir í hverfum Reykjavíkur en þetta er í sjöunda sinn sem slík íbúakosning fer fram á vegum borgarinnar.
Borgin leggur 450 milljónir til verkefnisins í ár og hefur þeirri fjárhæð verið skipt á milli hverfana eftir fjölda íbúa.
Íbúar sem eru eða verða 15 ára á árinu hafa kosningarétt en hingað til hefur aldurstakmarkið verið 16 ár.
Forval verkefna hefur þegar farið fram og kosið er á milli verkefna sem komust í gegnum fyrri síu.
Meðal verkefna sem kjósa má um í flestum hverfum eru gönguþveranir gatna, vatnspóstar, endurbætur á göngustígum, leik- og sparkvöllum, fjölnota hreysti- og klifursvæði, þurrgufuböð við sundlaugar, nýjar ruslafötur og fleira.
Auk framangreindra verkefna gefst íbúum í Grafarvogi kostur á að kjósa um rafræna vöktun við innganga í hverfið sem kosta myndi 33 milljónir, íbúar í Vesturbænum geta kosið um hundagerði við Vesturbæjarlaug fyrir 4 milljónir og Árbæingar gætu varið sömu fjárhæð í deilihjólastæði.
Snjallvæðing Breiðhyltinga vekur athygli en þeir gætu kosið sér hleðsluskápa fyrir snjalltæki og snjallbekki til að setjast á meðan hlaðið er.
Íbúar Grafarholts geta kosið sér meira skjól með auknu fé til gróðursetninga og íbúar Hlíða kosið bætt aðgengi að stríðsminjum í Öskjuhlíð og tjörn á Klambratúni. Kjalnesingar kosið að virkja vindinn með vindmyllu fyrir 4 milljónir. Þeir eiga þess einnig kost að auka rafræna vöktun í sínu hverfi líkt og Grafarvogsbúar.
Kosningin hófst í gær og fer fram á vefnum hverfidmitt.is. Íbúar hafa allan októbermánuð til að kjósa.