Færeyjar, þessar eyjar rétt sunnan við okkur, byggðar okkar minnstu frændum, okkar bestu vinum sem réttu fram hjálparhönd þegar aðrir sneru við okkur bakinu. Færeyingar, sem eru eina þjóðin sem eru færri en við og tala svo fyndið tungumál. Hvað vitum við eiginlega um þjóðina sem dansar Orminn langa, étur skerpukjöt í hvert mál, klæðist þjóðbúningum við hvert tækifæri, heldur upp á Ólavsvöku, les William Heinesen og hlustar á Eivør?
Sif Gunnarsdóttir er nýflutt heim eftir fimm ára dvöl hjá þessum nágrönnum okkar og ætlar að reyna að útskýra hversvegna hluti af hjarta hennar varð eftir í Færeyjum og afhverju henni finnst að allir verði betri menn af því að skreppa þangað í heimsókn.