Helgi Árnason fyrrverandi skólastjóri Rimaskóla skrifar mikilvægan pistil um skák i skólum

Helgi Árnason fyrrverandi skólastjóri Rimaskóla skrifar mikilvægan pistil um hvernig má innleiða skák i skóla með frábærum árangriSkákin er minn styrkleiki – Markviss skákþjálfun í RimaskólaSkák er ekki bara skemmtileg heldur hafa margar rannsóknir sýnt að skákin hefur margvísleg bætandi áhrif á námsárangur og félagsfærni og sumir ganga svo langt að segja að skák geri okkur gáfaðri.1,2 Rimaskóli í Grafarvogi var stofnaður árið 1993 og hefur frá upphafi notið athygli og frægðar fyrir árangur nemenda í skákíþróttinni. Skólinn hefur unnið ótal sigra á Íslands-og Reykjavíkurmótum og auk þess unnið Norðurlandamót grunnskólasveita í sex skipti, oftar en nokkur annar skóli á Norðurlöndum fyrr og síðar.

Hefð hefur skapast í skólanum fyrir því að allir nemendur fái tækifæri á að kynnast grunnatríðum skáklistarinnar og sérstaklega verið ýtt undir áhuga þeirra sem ná góðum árangri með því að veita þeim spennandi tækifæri við taflborðið með þátttöku í skákmótum og viðburðum sem tengjast skákíþróttinni bæði innanlands og erlendis. Skólinn hefur fengið til liðs við sig færustu skákkennara landsins, auk þess sem eldri nemendur reynast áhugasamir um að leiðbeina þeim yngri í formi jafningjafræðslu. Kennslan fer fram með fjölbreyttum hætti, svo sem í hópatímum, einkakennslu, gegnum tölvur og með stuttum hraðskákmótum sem reynst hefur hvað vinsælast hjá nemendum. Skákstarfið í Rimaskóla hefur ekki einungis miðast við afreksstarfið heldur hefur ekki síður hefur verið lögð áhersla á jafna þátttöku stúlkna og drengja í skák. Öll börn geta náð undraverðum framförum í skákinni ef þau fá til þess tækifæri og stuðning. Skólinn hefur lagt áherslu á skákiðkun nemenda sem eiga við námsörðugleika að stríða, kljást við einhverfu, ofvirkni og athyglisbrest og/eða lágt sjálfsmat og félagslega einangrun. Skák er skemmtileg og gefur öllum tækifæri á að taka þátt. Árið 2016 hlaut Rimaskóli myndarlegan styrk úr Sprotasjóði fyrir verkefnið „Skákin er minn styrkleiki“. Markmið verkefnisins var að höfða til áðurnefnds hóps sem áttu við hina ýmsu námserfiðleika og einbeitingarleysi að stríða.

Skólinn réð Björn Ívar Karlsson skákkennara til verksins sem stóð yfir skólaárið 2016 – 2017 og rúmlega 20 nemendur Rimaskóla nýttu sér. Árangur verkefnisins reyndist ótvíræður. Skákin bætti rökhugsun, einbeitingu, þolinmæði og ákvarðanatöku þessara nemenda auk hæfni þeirra til að hugsa fram í tímann. Skákiðkunin nýttist þeim til góðs í námi, einkum stærðfræði og öðrum raungreinum. Þegar leið á skólaárið gekk þessum nemendum betur að halda einbeitingu við skákborðið. Einbeitingin sást samhliða í hefðbundum greinum með skipulagðari og markvissari vinnubrögðum. Skákiðkunin hafði því margvísleg jákvæð áhrif á þá nemendur sem sóttu verkefnið. Mörg þeirra fóru að æfa skák utan skóla, tóku þátt í skákmótum fyrir hönd Rimaskóla eða ein og sér. Þetta gaf þeim aukið sjálfstraust í hópnum og nokkur uppgötvuðu sig sem „sterkustu“ skákmenn bekkjarins. Þessir nemendur tóku skákæfingar og skák á netinu fram yfir aðra tölvuleiki. Skákin reyndist því í mörgum tilfellum nýtt og jákvætt áhugamál heima fyrir, t.d. með því að krakkarnir tefldu við foreldra sína, ættingja og vini. Árangur og niðurstöður Rimaskóla með verkefnið „Skákin er minn styrkleiki“ og þær kennsluaðferðir sem valdar voru til að ná settum markmiðum hafa vakið athygli og verið kynntar skákkennurum og skólafólki, og Rimaskóli hefur veitt öðrum skólum kennslufræðilega ráðgjöf og leiðsögn á þessum vettvangi.Skák er skemmtileg hafa verið einkunnarorð í Rimaskóla allt frá byrjun. Það er vel haldið utan um allt skipulag sem viðkemur skákinni í skólanum, kennslan fer fram í velútbúinni og bjartri skólastofu þar sem skjávarpi og vönduð skáksett eru til staðar. Í skápum á göngum prýða svo á annað hundrað verðlaunagripa, myndir og viðurkenningarskjöl. Í nærfellt 20 ár hefur skákin þannig skipað stóran sess Rimaskóla og hefur – ásamt öðrum íþróttum – eflt sjálfmynd skólans og nemenda hans.1. https://www.stjornarradid.is/…/skyrsla-nefndar-um-skak.pdf2. https://www.brainscape.com/…/brain-benefits-of-playing…/


Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.