Ragnar Axelsson segir frá upplifunum sínum á Grænlandi
Menningarhús Spönginni, mánudaginn 25. september kl. 17:15-18:00
Ragnar Axelsson ljósmyndari hefur undanfarin þrjátíu ár helgað sig því verkefni að skrá líf og störf íbúa norðurslóða og þær breytingar sem orðið hafa á umhverfi þeirra og samfélagi.
Hann hefur á fjölmörgum ferðum sínum til Grænlands orðið vitni að algjörum stakkaskiptum sem þar hafa orðið á gróðurfari, dýralífi og mannlífi, í kjölfar hlýnunar jarðar, sem er sérlega mikil á norðurhveli og hefur keðjuverkandi áhrif á loftslag um allan heim. Þegar Ragnar hóf ljósmyndun við Scoresby-sund á Grænlandi fyrir þrjátíu árum var hitastigið -25°, í dag er hitinn -1°. Þróunin er ískyggileg.
Ragnar sýnir ljósmyndir og segir frá upplifunum sínum á Grænlandi í Borgarbókasafni Menningarhúsi Spönginni mánudaginn 25. september kl. 17:15.
Ragnar Axelsson er afkastamikill ljósmyndari og á að baki langan feril, m.a. sem blaðaljósmyndari. Á undanförnum árum hefur hann skapað sér æ stærra nafn í heimi alþjóðlegrar ljósmyndunar og verk hans hafa verið birt í fjölmiðlum um allan heim. Fyrr á þessu ári hlaut Ragnar Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita og bóka almenns efnis fyrir ljósmyndabókina Andlit norðursins.
Ljósmyndin hér að ofan er að sjálfsögðu eftir Ragnar og er sótt á vefsíðu hans.
Nánari upplýsingar veitir:
Sigríður Stephensen
sigridur.steinunn.stephensen@reykjavik.is
s. 411 6230