Grafarvogskirkja messar fyrir lokuðum dyrum þessi jól

Séra Guðrún Karls Helgudóttir, sóknarprestur við Grafarvogskirkju segir kirkjuna í siðferðislegri klemmu þessi jólin, vegna samkomutakmarkana. Þó að heimild sé fyrir helgihaldi í 50 manna sóttvarnarhólfum hafi þessi fjölmennasta sókn landsins afráðið að hafa engar opnar messur þessi jól, í því skyni að vernda sóknarbörn, starfsfólk og kórmeðlimi fyrir smitum.

„Þetta er mjög erfið ákvörðun og við vorum búin að vera í þrjá daga að ræða allar hugsanlegar lausnir. Við vorum tilbúin með allar mögulegar útgáfur, eftir því hvaða reglur væru kynntar,“ segir Séra Guðrún Karls Helgudóttir sóknarprestur við Grafarvogskirkju, um áhrif samkomutakmarkana á helgihald um jól og áramót.

Siðferðisleg klemma

Helgihald í Grafarvogskirkju þessi jól og áramót fer eingöngu fram í streymi þetta árið. Grafarvogssókn er fjölmennasta sókn landsins og við kirkjuna starfa fjórir prestar og tveir organistar.

Guðrún segir kirkjuna standa frammi fyrir siðferðislegri klemmu, en þó að reglurnar segi eitt geti siðferðiskenndin sagt annað og ekki sé endilega æskilegt að stefna fólki saman miðað við núverandi ástand, þó að jafnvel sé heimild til þess. Aftur á móti hafi takmarkanirnar slæm áhrif á kirkjustarfið.

„Það er eitt að hafa opið og leyfa þeim að koma sem vilja, en svo erum við með kóra sem hafa ekki eins mikið val. Eigum við að láta þau mæta í þessu ástandi?“ Spyr Guðrún. „Við erum með 40 manna fullorðinskór, barna- og unglingakór sem telur 50 manns og svo þriðja kórinn sem er aðeins minni,“ segir hún. „Við ætluðum að vera með alla þrjá kórana á aðfangadagskvöld.“

Guðrún kveðst þó vera öllu vön í þessum efnum. „Við frestuðum fermingum í fyrra, þremur dögum fyrir fyrstu fermingu og þá var fólk var búið að panta sal og allt. Þetta ástand er rosalega slæmt fyrir kirkjuna og þá sem vilja sækja kirkju,“ segir hún og bætir við að ekki sé eins að koma í kirkju og að fylgjast með helgihaldi í gegnum streymi.

Færri við jarðarfarir en áður

Guðrún segir jarðarfarir undanfarið hafa farið fram með hraðprófum, „en þrátt fyrir það eru mun færri að mæta í jarðarfarir en fyrir Covid. Fólk bara velur að halda sig heima.“

„En svo finnum við líka að það er stór hópur sem er búinn að fá nóg og vill bara koma í kirkju. Margar kirkjur eru það stórar að auðvelt er að fylgja öllum sóttvarnareglum og gera ráðstafanir,“ segir hún.

„Fyrir Covid voru svona 700 manns í jólamessum í Grafarvogskirkju.“ Hún segir Grafarvogskirkju hafa stefnt á að nota hraðpróf þessi jólin, og reiknað hafi verið með 300-400 kirkjugestum. „Við erum ekki að reikna með sama fjölda núna út af Covid. Svo eru margir líka fastir í einangrun eða sóttkví,“ segir Guðrún.

Hún segir að jafnan standi kirkjan fyrir tveimur messum á aðfangadag, en einnig sé messað í Kirkjuseli í Spöng, og þangað mæti yfirleitt 150 manns í jólamessu.

„Þetta er mikil óvissa, við erum vön miklu fjölmenni og hér fara í gegn allt að 2000 manns yfir jólin.“ Hún bætir við að sjö messur séu í kirkjunni yfir jól og áramót, auk annara viðburða á borð við útfarir, skírnir og giftingar.

„Útfarirnar detta ekki niður, þær eru það eina sem er ekki hægt að fresta í kirkjunni,“ segir Guðrún. 

Fréttin kemur frá Fréttablaðinu.

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.