Allir nemendur í 6. bekk Rimaskóla tóku þátt í leiksýningu bekkjarins á ævintýrinu um Hróa hött og félaga undir beru lofti í grenndarskógi skólans innst í Grafarvogi. Þetta er 6. árið í röð sem Rimaskóli stendur fyrir verkefninu „Leikhús í skóginum“ og hlaut verkefnið Hvatningarverðlaun SFS árið 2012. Krakkarnir í 6. bekk komu mjög vel undirbúnir eftir þrotlausar æfingar frá því um miðjan maí. Þau stóðu sig frábærlega í hlutverkum hermanna, útlaga og almennings í Nottingham, klæddir skrautlegum búningum og vopnum sem Jónína Margrét myndlistarkennari og Haraldur Hrafnsson smíðakennari aðstoðuðu þau við að gera. Hrói höttur og félagar voru dæmdir útlægir í Skýrisskóg og hundeltir af hermönnum fógetans. Fógetinn hræddist alltaf meira og meira þennan útlaga sem safnaði að sér liði og stuðningsmönnum. Hrói rændi þá ríku og gaf til þeirra fátæku. Réttlætið sigraði að lokum. Grenndarskógur Rimaskóla er afar heppilegur vettvangur til að sviðsetja leikverk og flutningur krakkanna í 6. bekk, búningar, vopn og sviðsmynd verksins nutu sín vel. Boðið var upp á fjórar sýningar og öllum nemendum Rimaskóla og foreldrum leikara boðið að sjá. Leikstjóri sýningarinnar var eins og fyrri ár Eggert A. Kaaber leiklistarkennari Rimaskóla sem naut aðstoðar kennara og starfsmanna skólans við undirbúning og uppsetningu.
[su_button url=“https://www.facebook.com/media/set/?set=a.346312575543907.1073741864.111119802396520&type=3&uploaded=43″]Myndir frá sýningunni…..[/su_button]