Oddaleikur Fjölnis og Selfyssinga um sæti í Olísdeild karla í handknattleik verður háður í Dalhúsum í kvöld og hefst klukkan 19.30. Viðureignin í kvöld er sú fimmta en að loknum fjórum leikjum standa liðin jöfn að vígi, 2-2.
Gríðarlega eftirvænting er fyrir leiknum og er ljóst að Dalhúsin verða pökkuð áhorfendum en húsið rúmar um 600 áhorfendur. Miðar runnu út í forsölu á Selfossi í gær, alls 150 miðar, og aðrir miðar standa stuðningsmönnum Fjölnis og Grafarvogsbúum til boða. Sala á þeim hefst klukkan 17 í dag við sundlaugarinnganginn.
Fjölnisfólk þarf að koma snemma að kaupa því það liggur ljóst fyrir að áhuginn á leiknum er mikill og það verður uppselt á leikinn enda aðeins hægt að koma fyrir ákveðnum fjölda inn í húsið svo gott sé.
Til að fá að kaupa sér miða í Fjölnisforsölunni þarf að sýna fram á tengingu við félagið og allir þurfa að vera Fjölnismerktir – helst í FJÖLNISTREYJU! Krakkar fá frítt inn en þurfa að fá miða í miðasölunni.
Þar sem ansi þröngt verður á þingi þá er það alveg ljóst að það þarf að sýna starfsfólki, gæslu, andstæðingum og öllum öðrum virðingu og tillitssemi til að allt fari vel fram.