Borgarráð hefur samþykkt húsaleigusamning Reykjavíkurborgar og Reita I ehf. um leigu á húsnæði að Spönginni 41 í Reykjavík sem Foldasafn Borgarbókasafns mun flytja í innan tíðar. Foldasafn Borgarbókasafns hefur undanfarin 18 ár verið staðsett í 702 m2 húsnæði í kjallara Grafarvogskirkju.
Við flutning í nýtt og stærra hús mun skapast tækifæri til að breyta áherslum í rekstri bókasafnsins en nýtt húsnæði að Spönginni 41 er um 1300 m2 að stærð en þar var áður líkamsræktarstöð. Í leigusamningnum er gert ráð fyrir að húseigendur sjái um breytingar þannig að það henti fyrir bókasafn.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir safnið hugsað sem miðstöð menningar og mannlífs í Grafarvogi. „Það er mikilvægt að í einu fjölmennasta hverfi borgarinnar sé til gott bókasafn. Bæði fyrir íbúana í hverfinu og aðra borgarbúar sem vilja geta notið fjölbreyttrar afþreyingar, þjónustu og menningarstarfsemi“ segir Dagur.
Í safninu verða góð borð og stólar til afnota fyrir lestraraðstöðu sem kemur nemum að góðum notum en í næsta nágrenni við safnið er stór framhaldsskóli. Safnið er einnig á mörkum fjögurra grunnskólahverfa í Grafarvogi en í núverandi húsnæði er engin slík aðstaða fyrir hendi.
Þá er einnig gert ráð fyrir fjölnota sal og tveimur minni fundarsölum sem nýtast mun undir ráðstefnur, fundi og aðra viðburði.
Afhending verður 1. september næstkomandi.